Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 01. febrúar 2021 20:27
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Jakob Franz: Þetta er draumurinn og hefur verið í langan tíma
Mynd: Palli Jóh
Mynd: Palli Jóh
Gengið var í dag frá félagaskiptum Jakobs Franz Pálssonar til Venezia. Hann fer til ítalska félagsins að láni frá uppeldisfélagi sínu Þór en Venezia er með forkaupsrétt á leikmanninum. Jakob er átján ára gamall og hefur leikið sem bakvörður í þeim leikjum sem hann á með meistaraflokki Þórs.

Hann lék einn leik sumarið 2019 og ellefu leiki í Lengjudeildinni í fyrra. Jakob á þá ellefu unglingalandsleiki að baki. Hann var einnig hluti af 2. flokki Þórs sem vann B-deildina síðasta sumar og framlengdi Jakob samning sinn við Þór síðasta haust.

Fyrsta spurning fréttaritara eftir að hann óskaði Jakobi til hamingju með félagaskiptin var hvort hann væri þegar mættur út til Feneyja. Jakob kvaðst svo ekki vera, hann var staddur í borg óttans, sunnan heiða.

„Nei, ég er ekki kominn út. Ég er á æfingum fyrir sunnan núna og líklegast fer ég út eftir tvær vikur," sagði Jakob.

Jakob var á dögunum valinn til að æfa með U18 ára landsliðinu sem Ólafur Ingi Skúlason þjálfar. Þær æfingar fara fram í þessari viku.

Hvernig kom Venezia upp?

„Það var einfaldlega haft samband í gær og þetta var allt saman klappað og klárt í dag."

Hvernig líst þér á að fara til Venezia? Ekkert hikandi að hoppa á þetta á þessum tímapunkti?

„Ég er mjög spenntur fyrir þessu öllu saman. Nei nei, þetta er draumurinn og hefur verið í langan tíma."

Hvað vissiru og veist núna um Venezia degi eftir að þetta kemur upp?

„Svo sem ekki mikið. Ég vissi að félagið væri í Feneyjum og væri í B-deildinni á Ítalíu."

Ferðu beint í aðalliðið?

„Ég mun æfa með U-19 liðinu hjá þeim og mæti tvisvar til þrisvar sinnum í viku á æfingar með aðalliðinu."

Hjá félaginu eru þeir Óttar Magnús Karlsson og Bjarki Steinn Bjarkason. Ræddiru eitthvað við þá áður en ákvörðunin var tekin?

„Nei, en ég talaði við Bjarka Gunnlaugsson sem hjálpaði þeim að komast út og hann sagði að þeir hjá Venezia hugsa vel um leikmenn og að aðstaðan hjá félaginu sé góð," sagði Jakob að lokum.

Lánssamningurinn er til hálfs árs en forkaupsrétturinn gildir til næstu áramóta.
Athugasemdir
banner
banner
banner