ÍBV hefur fengið Henrik Mána B. Hilmarsson á láni frá Stjörnunni fyrir átökin í Lengjudeildinni næsta sumar.
Mörg félög höfðu áhuga á að fá hann í sínar raðir en Stjörnunni leyst vel á það sem ÍBV hafði fram að færa og var hann því sendur til Eyja.
Henrik er 21 árs gamall en hann kom við sögu í fjórum leikjum með Stjörnunni síðasta sumar. Hann lék mest megnis með KFG sumarið 2022 en kom við sögu í fimm leikjum hjá Stjörnunni.
Hann var lykilmaður í liði Stjörnunnar sem varð Íslandsmeistari í 2. flokki karla árið 2021.
„Henrik hefur verið að taka sín fyrstu skref hjá meistaraflokki núna undanfarin ár og við sáum vel á síðasta tímabili hversu fjölhæfur leikmaður hann er og vitum að hann mun nýtast Eyjamönnum vel í þeirra baráttu. Hlökkum til að fylgjast með Henrik á komandi mánuðum," segir Helgi Hrannarr Jónsson formaður meistaraflokksráðs karla hjá Stjörnunni.
ÍBV féll úr Bestu deildinni síðasta sumar og mun því leika í Lengjudeildinni á komandi tímabili.