Brasilíski sóknarmaðurinn Neymar hefur tjáð leikmönnum og starfsmönnum brasilíska félagsins Santos að hann ætli sér að spila með liðinu á næsta ári en þetta kemur fram í brasilíska miðlinum UOL.
Neymar, sem er markahæsti leikmaður í sögu brasilíska landsliðsins, spilaði með Santos upp yngri flokka og var aðalstjarna deildarinnar eða alveg þangað til að hann samdi við Barcelona árið 2013.
Árið 2017 var hann keyptur til Paris Saint-Germain fyrir metfé eða um 226 milljónir evra, en á síðasta ári yfirgaf hann franska félagið og samdi við Al-Hilal.
Sóknarmaðurinn sleit krossband snemma á tímabilinu og er enn frá en hann er þegar byrjaður að undirbúa sig undir að fara aftur til heimalandsins.
UOL segir að Neymar hafi verið í sambandi við leikmenn og starfsmenn Santos og þar hafi hann tjáð þeim að hann væri að stefna á það að spila með liðinu á næsta ári.
Neymar skrifaði undir tveggja ára samning við Al-Hilal á síðasta ári og kæmi því til Santos á frjálsri sölu.
Athugasemdir