Tveir leikmenn Miðbaugs-Gíneu hafa verið dæmdir í fjögurra leikja bann fyrir hegðun sína eftir 1-0 tap gegn Súdan í Afríkukeppninni.
Carlos Akapo fyrirliði og liðsfélagi hans Josete Miranda veittust að dómara leiksins eftir lokaflautið og létu rigna fúkyrðum yfir hann. Atvikið var svo slæmt að afríska fótboltasambandið gaf þeim fjögurra leikja bann.
Tveir af leikjunum eru skilorðsbundnir í eitt ár þannig að landsliðsfélagarnir fara í raun í tveggja leikja bann sem mun svo lengjast ef þeir brjóta aftur af sér á næstu tólf mánuðum.
Miðbaugs-Gínea datt úr leik með tapinu gegn Súdan en leikurinn var mjög svekkjandi fyrir Gíneu sem var sterkari aðilinn og fékk bestu færin en tókst ekki að skora.
Akapo og Miranda voru ekki með Miðbaugs-Gíneu í tapi gegn Alsír í lokaleik sínum í riðlakeppninni og endar Afríkukeppnina án stiga.
Fótboltasambandið í Miðbaugs-Gíneu hefur einnig hlotið rúmlega 8 þúsund evru sekt fyrir hegðun leikmanna sinna og starfsfólks í leiknum.
Afríska fótboltasambandið sektaði einnig Bertrand Traoré, fyrirliða Búrkína Fasó og leikmann Sunderland í ensku úrvalsdeildinni, um rúmar 8 þúsund evrur fyrir 'móðgandi ummæli' í viðtali eftir tap gegn Angóla um helgina.
Athugasemdir


