lau 01. maí 2021 16:43
Aksentije Milisic
Mjólkurbikarinn: Fjögur rauð, fimm mörk og framlenging í sigri KF á Dalvík/Reyni
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Dalvík/Reynir 2-3 KF
0-1 Oumar Diouck ('84)
1-1 Markaskorara vantar (90+5)
1-2 Sachem Wilson ('100)
1-3 Sachem Wilson (106)
2-3 Steinar Logi Þórðarson - Víti ('119)
Rauð spjöld: Gunnlaugur Rafn Ingvarsson, Sergi Monzonis (Dalvík/Reynir), Þorsteinn Már Þorvaldsson og Atli Snær Stefánsson (KF)

Það var fjör á Dalvíkurvelli í dag þegar Dalvík/Reynir og KF mættust í grannaslag í annari umferð Mjólkurbikarsins.

KF hefur verið með hreðjartak á grönnum sínum undanfarin ár og það breyttist ekki í dag.

2. deildarliðið fékk rautt spjald þegar um tuttugu mínútur voru eftir af leiknum en reisupassann fékk Atli Snær Stefánsson. Þrátt fyrir það náðu tíu leikmenn KF að komast yfir á 84. mínútu þegar Oumar Diouck skoraði.

Dalvík/Reynir gafst ekki upp og náði að jafna metin með síðustu marktilraun leiksins. Markið kom eftir hornspyrnu og því þurfti að framlengja leikinn.

Í byrjun framlengingarinnar fengu heimamenn rautt spjald og því liðin að spila tíu á móti tíu. Sachem Wilson kom KF aftur yfir á 100. mínútu leiksins og stuttu síðar fékk Dalvík/Reynir sitt annað rauða spjald.

Rauðu spjöldin í framlengingunni hjá Dalvík/Reyni fengu þeir Gunnlaugur Rafn og Sergi Monzonis.

Níu leikmenn Dalvíkur/Reynis reyndu allt sem þeir gátu gegn tíu leikmönnum KF en það var hinn ólseigi Sachem Wilson sem skoraði sitt annað mark á 106. mínútu.

Fjörið hélt áfram. Undir lok leiks fengu Dalvíkingar vítaspyrnu og fjórða rauða spjald leiksins leit dagsins ljós. Það fékk Þorsteinn Már Þorvaldsson og bæði lið með níu leikmenn á vellinum. Steinar Logi Þórðarson skoraði úr vítaspyrnunni og minnkaði muninn í 2-3.

Meira var ekki skorað og KF heldur því áfram að sigra þessa grannaslagi líkt og undanfarin ár. Þessum mjög fjöruga leik lauk því með 2-3 sigri KF sem fer áfram í 32-liða úrslitin.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner