Guðmundur Baldvin Nökkvason gekk til liðs við Stjörnuna á láni frá sænska liðinu Mjallby í síðasta mánuði. Fótbolti.net spjallaði við hann um félagaskiptin.
„Ég byrja í janúar með Mjallby og spila einhverja leiki. Svo vilja þeir senda mig á lán. Ég var heppinn að Stjarnan vildi fá mig, þegar Stjarnan heyrði í mér þá var það alltaf spennandi. Taka þátt í verkefninu þeirra, það er spennandi sumar framundan, þeir líta vel út og Evrópukeppni líka, allt hjá Stjörnunni er mjög spennandi," sagði Guðmundur Baldvin.
Hann sá fram á að falla niður goggunarröðina hjá Mjallby en stefnir á að sanna sig hjá Stjörnunni og komast aftur út.
„Það er markmiðið en ef það verður gott sumar þá getur verið erfitt að fara aftur til baka en að sjálfsögðu er það markmiðið að komast aftur út og spila aftur þar en fyrst að standa mig með Stjörnunni," sagði Guðmundur Baldvin.
Hann er spenntur fyrir því að berjast um stöðu við Jóhann Árna Gunnarsson á miðjunni í liði Stjörnunnar í sumar.
„Hann er búinn að vera góður á undirbúningstímabilinu þannig þetta verður góð samkeppni, það er heilbrigt að hafa góða samkeppni þannig mér líst vel á það," sagði Guðmundur Baldvin.
Guðmundur er uppalinn Stjörnumaður og gekk til liðs við Mjallby frá Garðabæjarfélaginu síðasta sumar. Það var erfitt að kveðja Garðabæinn.
„Sérstaklega eftir að þeir fóru á helvítis skrið eftir að ég fór. Ég sé ekkert eftir því en það var geggjað að horfa á þá brillera undir lokin," sagði Guðmundur Baldvin.