Mbeumo, Wirtz, Diomande, Quenda, Nypan, Van Nistelrooy, Cherki og fleiri góðir í slúðri dagsins
   mið 02. ágúst 2023 20:03
Brynjar Ingi Erluson
Meistaradeildin: Orri Steinn með sýningu er FCK sló Blika úr leik
Orri Steinn skoraði þrennu og lagði þá eitt mark upp í sigrinum
Orri Steinn skoraði þrennu og lagði þá eitt mark upp í sigrinum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Höskuldur skoraði laglegt aukaspyrnumark
Höskuldur skoraði laglegt aukaspyrnumark
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Blendnar tilfinningar hjá Óskari í kvöld
Blendnar tilfinningar hjá Óskari í kvöld
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FCK 6 - 3 Breiðablik (8-3, samanlagt)
0-1 Jason Daði Svanþórsson ('10 )
1-1 Diogo Gonçalves ('34 )
2-1 Elias Achouri ('35 )
3-1 Jordan Larsson ('37 )
4-1 Orri Steinn Óskarsson ('45 )
5-1 Orri Steinn Óskarsson ('47 )
5-2 Kristinn Steindórsson ('51 )
6-2 Orri Steinn Óskarsson ('56 )
6-3 Höskuldur Gunnlaugsson (f) ('74 )
Lestu um leikinn

Breiðablik er úr leik í forkeppni Meistaradeildar Evrópu eftir að hafa tapað fyrir FCK, 6-3, á Parken í kvöld. Orri Steinn Óskarsson fór hamförum og skoraði þrennu ásamt því að leggja upp eitt gegn föður sínum.

Blikar töpuðu fyrri leiknum á Kópavogsvelli, 2-0, og gátu því ekki beðið um betri byrjun er Jason Daði Svanþórsson skoraði á 10. mínútu er hann tók boltann viðstöðulaust á lofti eftir sendingu frá Oliver Sigurjónssyni.

Gestirnir ætluðu sér stóra hluti og var liðið líklegt framan af í fyrri hálfleiknum en allt hrundi eftir að FCK skipti William Clem af velli og setti Elias Achouri inn.

Diogo Goncalves jafnaði metin með marki úr aukaspyrnu á 34. mínútu og mínútu síðar gerði Achouri annað markið með laglegri afgreiðslu.

Jordan Larsson gerði þriðja markið á 37. mínútu eftir stoðsendingu frá Orra og var því alveg vel við hæfi að Orri myndi gera fjórða markið undir lok hálfleiksins.

Orri var ákveðinn í að skora fleiri og kom annað mark hans í upphafi síðari hálfleiks. Það gerði hann með góðu hlaupi vinstra megin í teiginn áður en hann setti boltann hárfínt framhjá Antoni Ara.

Kristinn Steindórsson minnkaði muninn fyrir Blika aðeins fjórum mínútum síðar er hann skaut boltanum af varnarmanni FCK og yfir Kamil Grabara í markinu.

Orri svaraði með því að fullkomna þrennu sína á 56. mínútu og það gerði hann með frábærri afgreiðslu rétt fyrir utan teig og niðri í hægra hornið. Ótrúleg frammistaða hjá honum.

Blikar áttu góða kafla og þeim tókst að skora þriðja markið. Fyrirliðinn, Höskuldur Gunnlaugsson, gerði það beint úr aukaspyrnu. Hann setti hann þéttingsfast í vinstra hornið og kom Grabara engum vörnum við.

FCK fer með sigur af hólmi, samanlagt 8-3, og er því komið í næstu umferð þar sem liðið mætir Sparta Prag á meðan Blikar fara í 3. umferð í forkeppni Evrópudeildarinnar og mæta þar Zrinjski Mostar frá Bosníu og Herzegóvínu.
Athugasemdir
banner
banner