Eze, Rabiot, Dyche, Howe og miðjumannsleit Liverpool í slúðurpakka dagsins
banner
   mán 02. september 2024 13:12
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hrikaleg mistök að halda Ten Hag - „Ætli hann trúi enn þessum orðum sínum?"
Erik ten Hag, stjóri Manchester United.
Erik ten Hag, stjóri Manchester United.
Mynd: Getty Images
Man Utd fagnar marki á tímabilinu.
Man Utd fagnar marki á tímabilinu.
Mynd: EPA
Erik ten Hag var að hefja sitt þriðja tímabil sem stjóri Manchester United en hann afrekaði það í gær að verða fyrsti stjórinn í sögu félagsins til að byrja tímabil tvisvar á að tapa fyrstu tveimur af þremur leikjunum.

Fréttamaðurinn James Westwood skrifar í dag harðorðan pistil fyrir Goal um Ten Hag og störf hans hjá United. Hann segir að félagið hafi gert stór mistök í sumar með að halda Ten Hag.

INEOS, nýr eigendahópur Man Utd, tók sér langan tíma til umhugsunar um framtíð Ten Hag í sumar en eftir að hann stýrði liðinu til sigurs í FA-bikarnum undir lok síðasta tímabils, þá var tekin ákvörðun um að halda honum. Það var gert þrátt fyrir að United hafi endað í áttunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar, sem er hræðilegur árangur.

„Þjálfarinn er ekki aðalvandamálið hjá Manchester United," sagði Sir Jim Ratcliffe, sem fer fyrir INEOS, þegar ákveðið var að Ten Hag yrði áfram. Ratcliffe var augljóslega pirraður þegar hann sat í stúkunni á Old Trafford í gær þegar United tapaði 0-3 gegn helstu erkifjendum sínum í Liverpool. Hann greip um höfuð sitt og trúði vart eigin augum.

„Ætli hann trúi enn þessum orðum sínum?" spyr Westwood í grein sinni.

Westwood skrifar að núna sé engin afsökun fyrir Ten Hag og að United sé ekkert á leið fram á við undir hans stjórn. Hollendingurinn er í varnarstöðu þegar hann ræðir við fjölmiðla og notar það óspart að hann hafi unnið FA-bikarinn á síðustu leiktíð. Hann talaði um það eftir leikinn í gær að Man Utd myndi ná hinum liðum og vinna bikara. „Það hins vegar er ómögulegt ef Ten Hag verður áfram við stjórnvölinn þangað til í maí. INEOS gerði hrikaleg mistök með því að halda honum og 2024-25 gæti orðið algjörlega óbjarganlegt fyrir jól ef það verður ekki framkvæmd U-beygja mjög fljótlega," segir Westwood.

Arne Slot er búinn að stýra Liverpool í þrjá leiki og það eru strax skýr merki um stefnu og leikplan, en Ten Hag er á sínu þriðja tímabili og það eru engin einkenni á leik United. Hann hefur fengið að versla fyrir meira en 600 milljónir punda og fengið sína leikmenn inn og það eru engar afsakanir lengur.

„Hann hefur engan rétt á því að biðja um meiri tíma. Þetta er hans lið og hann ber einn ábyrgð á því að það nær engum árangri. Hann keypti Antony á 85 milljónir punda og hann kemst ekki lengur í byrjunarliðið. Þá keypti hann hina meiðslahrjáðu Rasmus Höjlund og Mason Mount á 135 milljónir punda," segir jafnframt í greininni.

Ten Hag fer erfiðlega af stað á nýju tímabili og það er fróðlegt að sjá hversu langur taumurinn er fyrir hollenska stjórinn.

Manchester United's major signings under Erik Ten Hag
byu/Chiswell123 insoccer

Athugasemdir
banner
banner
banner