Lærisveinar Arne Slot í Liverpool unnu annan leik sinn í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld með því að vinna Bologna, 2-0, á Anfield, en hann var nokkuð ánægður með frammistöðuna þó hann viðurkennir að Bologna hafi gert liðinu erfitt fyrir.
„Þetta var ekki auðveldur leikur. Bologna gerði okkur erfitt fyrir, svipað og með Atalanta, þar sem það er maður á mann yfir allan völlinn. Það þurfti að bíða eftir rétta augnablikinu til að spila sig í gegn og opna allt. Síðasta sendingin mátti vera betri,“ sagði Slot.
Hollendingurinn vildi ekki nota orðið hæstánægður yfir úrslit kvöldsins, en hann notaði það þó til að lýsa frammistöðu Ryan Gravenberch.
„Það var ekki margt sem ég var hæstánægður með, fyrir utan kannski mörkin og sérstaklega seinna markið. Frábært bolti frá Virgil og geggjað hlaup frá Trent Alexander-Arnold. Það er alltaf erfitt að spila gegn liði sem tekur svona mikla áhættu.“
„Á heildina litið voru þetta góð úrslit, en sjálfur myndi ég ekki nota orðið hæstánægður.“
„Ég er hæstánægður með hann. Ég segi það ekki við leikmenn í hálfleik því það eru enn 45 mínútur eftir, en ég sagði eftir leikinn við hann að hann hefði átt enn eina stórkostlegu frammistöðuna. Hann var magnaður í dag.“
Slot hefur unnið átta af níu leikjum sínum með Liverpool og er sá s fyrsti sem afrekar það hjá félaginu.
„Það er nánast ómögulegt að gera eitthvað sérstakt hjá þessu félagi. Það segir ýmislegt um hvernig við höfum byrjað, framlagið sem þeir hafa sett í þetta og hvernig þeir samþykktu hugmyndafræðina.“
„Það er enn erfiðari leikur fram undan þegar við spilum á laugardaginn klukkan 12:30, eftir að hafa spilað í Meistaradeildinni á miðvikudagskvöldi, en það er gott að byrja þetta svona, það er alveg ljóst,“ sagði hann í lokin.
Athugasemdir