Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   sun 03. apríl 2022 10:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Ótrúlega margar spurningar sem skilja mann eftir sem eitt stórt spurningamerki
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Arnar Þór Viðarsson hefur í tæpt eitt og hálft ár verið þjálfari karlalandsliðsins og nú er rétt rúmlega eitt ár frá því hann stýrði sínum fyrstu leikjum. Þeir voru í undankeppni HM í mars í fyrra; tap gegn Þýskalandi, slæmt tap gegn Armeníu og skyldusigur gegn Liechtenstein staðreynd.

Arnar kynnti fyrir flestum leikmönnum liðsins nýtt leikkerfi, 4-1-4-1, sem ekki hafði verið spilað áður í A-landsliðinu. Leikkerfinu 4-4-2 eða 4-4-1-1 var ýtt til hliðar og nú átti að fara nýja leið – einn djúpur miðjumaður og önnur nálgun en hafði hjálpað liðinu að ná besta árangri í sögu landsliðsins.

Það var fljótt ljóst að það myndi taka talsverðan tíma að koma þessari nýju nálgun í gegn. Gamli landsliðsfyrirliðinn átti í erfiðleikum í sínu hlutverki og menn tengdu verr en áður. Í kjölfarið fór svo að kvarnast úr hópnum af ýmsum ástæðum, sumir voru komnir á þann stað ferilsins að tími var kominn til að kalla þetta gott en aðrir hafa ekki spilað síðan vegna annarra ástæðna.

Gengið í þjálfaratíð Arnars hefur hreint ekki verið gott. Öflugustu úrslitin komu úti í Póllandi þegar jafntefli náðist í æfingaleik í júní í fyrra. Sigrarnir hafa einungis verið þrír og komu þeir gegn Liechtenstein í keppnisleikjum og í æfingaleik gegn Færeyjum.

Í þessum pistli ætla ég, fréttaritari Fótbolta.net, að vekja athygli á hlutum sem ég sem fjölmiðlamaður með enga þjálfaramenntun set spurningamerki við á þessu fyrsta ári Arnars í starfi. Þetta eru atriði eins og val á leikmönnum, leikkerfi, svör við spurningum fjölmiðlamanna og val á æfingaleikjum.

Mars 2021
Byrjum í mars í fyrra. Það mátti ekki velja Viðar Örn Kjartansson... en samt mátti velja hann. Birkir Már Sævarsson var allt í einu í banni í fyrsta leik og svo var spurning hverja í U21 árs landsliðshópnum átti að velja í verkefni A-landsliðsins sem fram fór á sama tíma og lokamót U21 árs liðsins.

Alfons Sampsted var valinn í A-landsliðið og spilaði einn leik, gegn Þýskalandi, þar sem Birkir Már var í banni. Hann upplifði að vera í keppnisverkefni með A-landsliðinu, fór á fundi og fékk að kynnast því hvernig A-landsliðið æfir. Meira um fundina síðar. Ef hann hefði verið með U21 árs landsliðinu þá hefði hann spilað alla þrjá leiki liðsins, mögulega hjálpað liðinu að ná betri árangri á mótinu og fengið að upplifa uppskeru þeirrar vegferðar sem hann hafði átt stóran hlut í árin á undan. Það var enginn annar augljós kostur í hægri bakvörðinn á eftir Birki Má á þeim tíma og alveg hægt að skilja það val en eftir á var mjög skrítið að Alfons spilaði einungis einn af þessum leikjum. Það var leikurinn sem liðið átti minnsta sénsinn á því að ná úrslitum – beint í dýpstu laugina.

Í mars var Lars Lagerbäck með í íslenska teyminu, en í kjölfarið var krafta hans ekki lengur óskað af þjálfarateyminu og hann látinn fara um sumarið. Sögur hafa heyrst af því að Lars hafi viljað halda í gamla góða 4-4-2 sem hafði virkað vel í hans þjálfaratíð en þeir Arnar og Eiður Smári Guðjohnsen hafi viljað halda í sitt.

Eftir tvo leiki í lokakeppni U21 árs landsliðsins, sem báðir töpuðust, kallaði Arnar í þá Jón Dag Þorsteinsson, Svein Aron Guðjohnsen, Ísak Bergmann Jóhannesson og Willum Þór Willumsson. Sveinn Aron var nýbúinn að segja á fréttamannafundi að hann teldi sig ekki vera tilbúinn í A-landsliðið en Arnar var tilbúinn að taka sénsinn á öðru. Eftir tapið slæma gegn Armeníu var komið að Liechtenstein og byrjaði Sveinn Aron sem fremsti maður. Það voru furðuleg skilaboð til Hólmberts Arons Friðjónssonar sem var í A-landsliðinu en varð að sætta sig við að byrja á bekknum. Sveinn var búinn að byrja tvo leiki með skömmu millibili og byrjaði svo þarna sinn þriðja leik á um það bil viku eftir að hafa lítið sem ekkert spilað með félagsliði sínu.

Á sama tíma var Willum Þór látinn sitja uppi í stúku og var ekki í leikmannahópnum, ákvörðun sem fáir geta skilið. Willum missti af tækifæri til að máta sig við miðjumenn í hæsta gæðaflokki á þessum aldri; þá Matteo Guendouzi og Aurelien Tchouameni. U21 liðið átti á þessum tímapunkti ennþá séns á því að komast í útsláttarkeppnina þó að sá möguleiki hafi vissulega verið ansi lítill. Að kalla upp fjóra lykilmenn úr U21 hópnum sendi ekki góð skilaboð til þeirra sem eftir voru og Frakkarnir áttu í engum vandræðum með að leggja íslenska liðið að velli.

Einn annar áhugaverður punktur í tengslum við landsleikjagluggann fyrir ári síðan er sú staðreynd að Patrik Sigurður Gunnarsson, augljós aðalmarkvörður U21 árs landsliðsins á þeim tíma, spilaði tvo fyrstu leikina í lokamótinu. Síðan hefur hann spilað núll mínútur af landsliðsfótbolta. Meiðsli hafa sett strik í reikninginn og gerðu það að verkum að hann gat ekki spilað síðasta sumar eða í janúar. Ákvörðun var tekin síðasta haust að Patrik yrði ekki meira með U21 liðinu sem hann er enn gjaldgengur í, hann væri kominn á þann stað að vera orðinn A-landsliðsmaður.

Elías Rafn Ólafsson byrjaði undankeppnina með U21 síðasta haust sem aðalmarkvörður liðsins en eftir að hafa gripið tækifærið hjá Midtjylland vann hann sér inn sæti í A-landsliðinu og var verðskuldað valinn til þess að verja mark liðsins eftir að Hannes Þór Halldórsson lagði hanskana á hilluna. Aftur að markvörðunum síðar.

Maí 2021
Í maí var svo valinn hópur fyrir þrjá æfingaleiki. Það varð ljóst þegar hópurinn var valinn að margir lykilmenn gæfu ekki kost á sér í verkfnið og niðurstaðan sú að átta leikmenn úr efstu deild á Íslandi voru valdir. Leikurinn gegn Mexíkó í Bandaríkjunum var ekki á alþjóðlegum leikdegi og því þurfti að velja leikmenn úr íslensku deildinni. Sumir þeirra tóku þátt í öllum þremur leikjunumþá og voru valdir fram yfir leikmenn sem spiluðu sem atvinnumenn í Noregi og Svíþjóð. Hver voru skilaboðin þar? Það er leiðinlegt að segja frá því en efsta deild á Íslandi er samkvæmt lista UEFA ein versta deild álfunnar. Fjórir af þessum átta sem valdir voru úr íslensku deildinni hafa síðan tekið skrefið og haldið út í atvinnumennsku, hægt að horfa jákvætt í það! Þeir væru fimm ef ekki væri fyrir meiðsli Rúnars Þór Sigurgeirssonar. Hinir þrír voru þeir Kári Árnason (dró sig svo úr hópnum), Gísli Eyjólfsson og Birkir Már.

Leikirnir gegn Mexíkó og Póllandi voru að mörgu leyti mjög fínir en liðið heillaði alls ekki gegn Færeyjum og var í raun heppið að fara með sigur úr þeim leik. Þetta var síðasta verkefnið þar sem gamli fyrirliðinn var með.

Ágúst/september 2021
Það sem gerðist svo í ágúst var efni í heila skýrslu og verður ekki farið nánar út í hér. Allir sem fylgjast með vita að atburðirnir höfðu áhrif á landsliðið og gerði starf nýs þjálfara erfiðara. Góðir leikmenn – burtséð frá því hvernig þeir hegðuðu sér utan vallar – voru ekki lengur til taks og Arnar þurfti að leita annars staðar að lausnum.

Arnar vildi velja Kolbein Sigþórsson þá um haustið en það fékkst ekki í gegn og var niðurstaðan sú að leitað var til Viðars Arnar. Viðar fór úr því að vera utan hóps í að byrja fyrstu tvo leiki liðsins í september. Það var ansi áhugaverð ákvörðun svo ekki sé meira sagt og hefur Viðar sjálfur sett spurningamerki við það ferli.

Nú var kominn tími á nýjan leikmann til að spila í stöðu djúps miðjumanns í leikkerfi Arnars og var Guðlaugur Victor Pálsson í því hlutverki gegn Rúmeníu. Það gekk illa upp og Birkir Bjarnason var færður í það hlutverk gegn Norður-Makedóníu í næsta leik á eftir. Eitt stig var uppskeran í september og frammistaðan í um það bil 70 mínútur gegn N-Makedóníu, þar sem stigið náðist, hrein hörmung. Aftur átti liðið lítinn séns gegn Þýskalandi.

Í september ákvað Arnar að velja þá Mikael Egil Ellertsson og Andra Lucas Guðjohsnen. Andri Lucas var að koma til baka eftir mjög erfið meiðsli á meðan Mikael var kominn inn í aðalliðshópinn hjá Spal á Ítalíu. Andri Lucas kom inn og sýndi glefsur og flestir vildu sjá meira, fleiri mínútur. Mikael Egill var á þessum tímapunkti varla búinn að spila með U21 árs landsliðinu og fáir skildu af hverju hann fékk kallið fram yfir leikmenn sem spila erlendis og voru funheitir. Viðar Ari Jónsson er nefndur í þessu samhengi því á þessum tíma var hann einn heitasti leikmaður norsku deildarinnar og gerði vægast sagt sterkt tilkall til sætis í landsliðshópnum.

Október 2021
Í október var enginn Hannes og Elías Rafn stóð vaktina í markinu, stóð sig með prýði og umræða fór af stað hvort hann yrði næsti aðalmarkvörður liðsins til lengri tíma. Elías, Rúnar Alex Rúnarsson og Patrik berjast um marvarðarstöðuna. Arnar sagði á fréttamannafundi að hann ætlaði sér að gefa sér átján mánuði í að velja aðalmarkvörð. Í október skiptu Guðlaugur Victor og Birkir aftur með sér mínútunum í hlutverki djúps miðjumanns og liðið náði í fjögur stig. Guðlaugur lék ekki seinni leikinn þar sem hann hélt til Þýskalands vegna persónulegra ástæðna. Hann hefur ekki spilað síðan og því verið velt upp hvort landsliðsferli hans væri lokið.

Alfons fékk aftur mínútur í keppnisleik og Albert Guðmundsson skoraði sín fyrstu mörk í keppnisleik. Tímarnir virkuðu aðeins bjartari framundan eftir þann landsleikjaglugga og meira að segja örlitlar líkur á að liðið gæti náð umspilssæti í riðlinum.

Það vakti þó athygli að Ísak Bergmann var ekki færður niður í U21 árs landsliðið fyrir leik liðsins gegn Portúgal þar sem hann var í banni gegn Liechtenstein með aðalliðinu. Mátti hann ekki spila með U21 liðinu? Var átján ára leikmaður kominn á þann stað að U21 landsliðið kæmi ekki til greina? Leikurinn við Portúgal tapaðist með naumindum og menn spurðu sig ef og hefði spurninga.

Nóvember 2021
Vonin um umspilssæti hjá A-landsliðinu varð að engu á næsta leikdegi og eitt stig náðist úr leikjunum gegn Rúmeníu og N-Makedóníu á útivelli í nóvember. Á þessum tímapunkti voru leikmenn eins og Þórir Jóhann Helgason, Brynjar Ingi Bjarnason og Stefán Teitur Þórðarson að stimpla sig inn í landsliðið og sýna að þeir myndu gera tilkall til byrjunarliðssætis til framtíðar. Birkir Már og Ari Freyr Skúlason lögðu aftur á móti skóna á hilluna eftir leikinn gegn Norður-Makedóníu og kominn tími á nýja bakverði. Nú var ekki lengur hægt að velja leiki fyrir Alfons, hann varð að vera tilbúinn. Meira af því síðar.

Arnór Ingvi Traustason dúkkaði óvænt upp aftur í landsliðinu eftir rúmt hálft ár í burtu frá því og áfram var Mikael Egill valinn í hópinn þrátt fyrir að hann spilaði varla mínútu með liði sínu á Ítalíu. Hvaða skilaboð voru það á þá sem ekki voru valdir?

Einhverjir skáluðu svo eftir því var tekið eftir tapið í Skopje og umræða um áfengi í landsliðsferðum spratt upp. Formaður KSÍ hrósaði þjálfarateyminu opinberlega en margir veltu fyrir sér af hverju. Úrslitin voru ekki góð, leikplanið var að þróast hægt og erfitt var að finna bjarta punkta í frammistöðum einstakra leikmanna.

Janúar 2022
Næst á dagskrá voru tveir leikir í janúar en í millitíðinni, í lok nóvember, var Eiði Smára sagt upp sem aðstoðarmanni Arnars. Leitin að aðstoðarmanni tók talsverðan tíma og það var ekki fyrr en eftir verkefnið í janúar sem eftirmaður Eiðs var ráðinn. Arnar fékk traustið áfram. Var skoðað að reyna fá Heimi Hallgrímsson, sem átti stóran þátt í því að liðið komst á tvö stórmót, inn sem þjálfara á þessum tíma? Hefði hann haft áhuga á því? Samkvæmt svari við fyrirspurninni sem Fótbolti.net sendi á knattspyrnusambandið í nóvember var ekki haft samband við Heimi þegar hægt var að nýta uppsagnarákvæði í samningi Arnars.

Í janúar gafst tækifæri til þess að prófa fleiri leikmenn. Jafntefli náðist gegn Úganda en í seinni leiknum varð stórtap gegn Suður-Kóreu raunin. Einhverjir léku sína fyrstu landsleiki og kynntust landsliðsumhverfinu. Fagmaðurinn Grétar Rafn Steinsson hafði verið ráðinn til starfa snemma árs og ljóst að hann kæmi með þekkingu af hæsta stigi fótboltans.

Ein af ástæðunum fyrir ráðningunni á Grétari vakti athygli. Arnar sagði frá því á fréttamannafundi fyrir rúmum tveimur mánuðum að blaðamaður frá Rúmeníu hafði opnað augu sín, bent Arnari á hluti í leik Íslands sem landsliðsþjálfarinn vissi ekki af. Arnar sagði að Rúmenar hefðu séð að lykill að góðum úrslitum gegn Íslandi lægju í síðustu tuttugu mínútum leiksins. Af hverju vissi hann ekki af þessum staðreyndum spyr maður sig. Af hverju vissu Rúmenar meira um íslenska liðið heldur en íslenska teymið? Þegar rýnt var í frammistöðu íslenska liðsins, hvað var þá verið að rýna í?

Allavega, í framtíðinni skyldi landsliðsþjálfari Íslands vita af slíkum staðreyndum.

Mars 2022
Næst var svo komið að þeim leikjum sem spilaðir voru í lok mars, leikjum gegn Finnlandi og Spáni. Í aðdraganda verkefnisins var greint frá því að Þorgrímur Þráinsson og Friðrik Ellert Jónsson myndu ekki starfa áfram í kringum landsliðið. Ólafur Jóhannesson, þjálfari FH og fyrrum þjálfari landsliðsins, lét þau orð falla í útvarpsþættinum Fótbolti.net á dögunum að það virtist vera niðurskurður hjá sambandinu – að sjúkraþjálfararnir ættu að vinna launalaust. Óli sagði það með þeim fyrirvara að hann gæti verið að tala einhverja vitleysu.

Landsliðshópurinn var tilkynntur og þar mátti sjá nöfn á borð við Andra Fannar Baldursson og Andra Lucas. Þeir höfðu lítið spilað með sínu félagsliði fyrir verkefnið og hægt að setja spurningamerki við þeirra leikform. Mesta athygli vakti fjarvera Willums Þórs en ástæðan fyrir því að hann var ekki valinn var sú að „hann væri að snúa til baka eftir meiðsli“. Willum var búinn að spila á undirbúningstímabili og var að byrja nýtt tímabil sterkt.

Á sama tíma var Andri Fannar búinn að spila lítið sem ekkert með FCK eftir áramót og Aron Elís Þrándarson að jafna sig eftir aðgerð. Rökin fyrir því að velja Willum ekki voru því sérstök. Viðar Ari og Viðar Örn voru ekki heldur í hópnum. Viðar Örn hafði spilað frábærlega með Vålerenga á undirbúningstímabilinu og Viðar Ari hafði tekið næsta skref á sínum ferli eftir tímabilið í Noregi.

Þegar hópurinn var að koma saman vantaði mannskap á æfingu landsliðsins og Arnar steig þá inn í og tók þátt í æfingunni. Það vakti upp undrun margra og margir settu spurningamerki við hversu faglegt það væri. Hjörtur Hermannsson, Guðmundur Þórarinsson og Elías Rafn urðu að draga sig úr hópnum eftir að hann var tilkynntur og inn komu þeir Ari Leifsson og Atli Barkarson ásamt Höskuldi Gunnlaugssyni.

Mátti velja Sverri Inga Ingason eða var bannað að velja hann og bannað að segja frá því? Kristján Óli Sigurðsson, sem þekkir ágætlega til Sverris, virtist allavega ekki trúa því að Sverrir hefði ekki gefið kost á sér.

Fyrri leikurinn var gegn Finnlandi og var hægt að gleðjast yfir spilamennsku liðsins. Talað var um að það yrði að nást upp vani að ná í úrslit og vinna leiki. Hörður Björgvin Magnússon var mættur til baka eftir erfið meiðsli og íslenska liðið var líklegra en það finnska til þess að ná inn sigurmarki. Það vakti athygli að Rúnar Alex varði mark liðsins, en ekki var kominn tími á Patrik að þessu sinni.

Jón Daði Böðvarsson var verðskuldað búinn að vinna sér inn sæti í hópnum eftir góðar frammistöðu með Bolton og leiddi fremstu víglínu liðsins.

Andri Fannar lék síðustu tuttugu mínúturnar en Andri Lucas spilaði ekki vegna meiðsla. Margir bjuggust við því að Ísak Bergmann, einn mest spennandi leikmaður liðsins, myndi byrja en sú varð ekki raunin.

Næst var það svo sterkt lið Spánar. Það var alltaf vitað að sá leikur yrði erfiður. Þegar ákveðið var að mæta Spáni vonuðust eflaust margir eftir því að þeir Jóhann Berg Guðmundsson og Alfreð Finnbogason yrðu til taks og mögulega leikmenn eins og Sverir Ingi, Guðlaugur Victor og Rúnar Már Sigurjónsson. Sú varð ekki raunin, ástæðurnar fyrir fjarveru þessara öflugu leikmanna mismunandi og niðurstaðan var súrt 5-0 tap.

Arnar talaði um að það væri gott að spila á móti góðum liðum, það væri hægt að læra mikið af því. Það er hins vegar mjög langt í að Ísland mætir jafn góðu liði og Spáni og því hægt að setja stórt spurningamerki við þá ákvörðun að þessi leikur var valinn sem síðasti undirbúningsleikur landsliðsins fyrir B-deild Þjóðadeildarinnar í sumar.

Það voru ekki bara úrslitin, 5-0, sem voru vonbrigði gegn Spáni. Maður gat sagt sér það fyrir leikinn að þetta yrði erfitt en frammistaða leikmanna og yfirburðir Spánar voru ótrúlega mikil vonbrigði. Leikmenn virtust ekki vera vinna þetta verkefni saman og á mjög löngum köflum litu Spánverjar út eins og þeir væru á sendingaræfingu. Hvar var takturinn í liðinu? Liðið var samansett af ellefu einstaklingum sem reyndu að sinna sínu sem einstaklingar en ekki sem ein heild.

Ísak Bergmann var veikur og Andri Lucas var ennþá meiddur. Arnar talaði um að Andri Lucas myndi læra mikið af þessu verkefni og þar á meðal að vera með á þeim fundum sem fram fóru í þessum landsleikjaglugga.

En hvaða fundir voru það? Var rætt um þriggja miðvarða kerfi á þeim fundum? Var farið yfir það hvernig ætti að stoppa Spánverja á þeim fundum? Hvernig ætti að koma í veg fyrir að Spánverjar kæmust á bak við varnarmenn íslenska liðsins? Ef það var tilfellið þá voru menn annað hvort ekki að hlusta eða fundirnir alls ekki hitt í mark. Þriggja miðvarða kerfið var hrein hörmung og var breytt til baka úr því kerfi eftir að hafa fengið tvö mörk á sig með stuttu millibili. Átti að æfa það kerfi gegn einum besta sóknarbakverði heims sem þurfti ekki að hafa minnstu áhyggjur af sínu varnarhlutverki? Marcos Alonso lét íslensku varnarmennina líta hræðilega út á stuttum kafla eftir að hafa komið inn á sem varamaður. Vandræðalegt er orðið sem á vel við um þann kafla.

Hafa leikmenn trú á því sem Arnar leggur upp með? Segjast þeir bara hafa trú en hún er svo í raun ekki til staðar? Það átti ekki að tapa leiknum fyrir fram en það þurfti ekki að horfa lengi á leikinn til að sjá að menn voru ekki 100% stilltir á að gera þetta saman.

Á fundinum eftir leik talaði Arnar um nútímafótboltamenn, að mennirnir í hópnum væru meiri nútímafótboltamenn en þeir sem hefðu náð bestum árangri í sögu landsliðsins. Leikmenn eins og Gylfi Þór Sigurðsson, Jóhann Berg Guðmundsson, Aron Einar Gunnarsson, Alfreð Finnbogason og Kolbeinn Sigþórsson sem hefðu aldrei komist jafnlangt á sínum ferli ef ekki væri fyrir framúrskarandi tæknilega getu í bland við gífurlegt vinnuframlag. Þau ummæli hittu allls ekki í mark hjá landsliðsþjálfaranum og erfitt að skilja hvað hann ætlaði sér að segja.

„Hversu vont getur það verið upp á framtíðina að tapa sannfærandi gegn Spáni?“ voru orð sem undirritaður missti út úr sér á fréttamannfundi fyrir leikinn. Þetta hugsaði ég en ætlaði reyndar ekki að orða spurninguna svona enda meðvitaður um að þú spyrð ekki keppnismann í íþróttum út í möguleikann á að tapa leiknum sem framundan er. Enginn fer með það markmæmið í leik að ætla sér að tapa. Tilfinningin fyrir þessum leik var sú að hann væri svo gott sem tilgangslaus og tímaeyðsla - íslenska liðið ætti ekki séns í það spænska. Því miður var það svo það sem maður upplifið þegar leikurinn var flautaður á, fyrir utan að frammistaðan var verri en ég átti von á.

Ein mestu vonbrigðin voru frammistaða Alfonsar sem maður hefur séð spila frábærlega með félagsliði sínu. Hann átti í stökustu vandræðum allan leikinn. Hvar var hjálpin frá miðjumönnunum? Stefán Teitur, hvað átti hann að gera í sinni varnarvinnu? Stefán Teitur og Þórir Jóhann hjálpuðu Alfons svo gott sem ekkert í baráttunni við kantmennina og Jordi Alba og Alonso kom svo inn á í seinni hálfleik.

Höskuldur kom inn á sem vængbakvörður í seinni hálfleik en var fljótlega orðinn hægri kantmaður eftir að skipt var um leikkefi. Arnari stóð til boða að velja hægri kantmann sem spilaði áður hægri bakvörð í Viðari Ara en kaus að gera það ekki.

Andri Fannar, sem er orðinn tvítugur, spilaði ekkert gegn Spáni. Af hverju var hann ekki með U21 liðinu í baráttu þess um sæti á næsta lokamóti? Þar töpuðust dýrmæt tvö stig, tvö stig sem gætu orðið til þess að Ísland fer ekki á næsta lokamót í flokki U21 árs liða. Var betra að hafa Andra ónotaðan varamann í A-landsliðinu?

Ef Andri hefði verið með U21 hefði þá Logi Hrafn getað hjálpað U19 í sínu verkefni sem fór eins og það fór? Margar ef og hefði pælingar því mikið var undir í mars, bæði hjá U21 og U19. Andri hefur eins og áður komið fram spilað mjög lítið með liði FCK og er tilfinningin sú að hann hefði haft gott af því að spila stórt hlutverk.

Yngri landsliðin
Í pistlinum er komið inn á U21 landsliðið og U19 landsliðið. Hvers vegna? Jú, fjöldi leikja og erfiðleikastig verkefna hjá þessum liðum fer eftir gengi þeirra í undankeppni fyrir EM. Í október var ákveðið að þeir Kristian Nökkvi Hlynsson og Hákon Arnar Haraldsson myndu spila með U19 en þeir höfðu báðir leikið vel með U21 liðinu í september. Markmiðið með þeirri ákvörðun var að koma U19 áfram í milliriðla og fá fleiri leiki á háu erfiðleikastigi fyrir drengi í því liði. Það tókst en á sama tíma tókst ekki að ná í stig gegn Portúgal á heimavelli hjá U21.

Núna í mars var svo Kristian í U21 landsliðinu og sömu sögu má segja af Loga Hrafni. Liðið náði í gott stig gegn Portúgal en tókst ekki að leggja Kýpur að velli. Á sama tíma var U19 í sínum milliriðli en tókst ekki að fara áfram í lokakeppni EM. Í draumaheimi hefði Ísak Bergmann spilað gegn Portúgal í október, Andri Fannar spilað með U21 í mars og U21 væri í betri stöðu. Andri hefði þá getað mætt til síns félagsliðs með yfir 100 mínútur spilaðar í stað þess að mæta til baka með 20 mínútur.

Spurningar sem maður spyr sig
Andri Lucas mætti meiddur í mars verkefnið. Af hverju var ekki maður kallaður inn í hans stað? Arnór Ingvi, er hann hluti af framtíðarplönum Arnars? Í sumar er svo komið að Þjóðadeildinni. Áaro Patrik að fá tækifæri í markinu í keppnisleikjum eða á Elías að spila? Hvenær á Patrik þá að fá sitt tækifæri?

Hvenær á miðjumaður, sem spilar sem djúpur miðjumaður með félagsliði sínu að spila sem djúpur miðjumaður í 4-1-4-1 kerfinu? Aron Elís og mögulega Andri Fannar eru þeir menn sem maður horfir í fyrir þá stöðu á meðan Guðlaugur Victor gefur ekki kost á sér. Á Aron Elís að fá meira en leik gegn Spáni þar sem við áttum ekki séns frá fyrstu mínútu til þess að sanna sig? Er kominn tími á Kristian Nökkva í A-landsliðið? Er komið fínt af 4-1-4-1 kerfinu og hægt að skoða að prófa eitthvað annað? Hvert er DNA liðsins? Skortir fagmennsku í kringum liðið? Vilja okkar bestu menn, Jóhann Berg og Alfreð, spila aftur með landsliðinu? Er Arnar á leið í rétta átt?

Svo má velta fyrir sér hvort það sé yfir höfuð pressa á Arnari eftir slæmt gengi. Er ekki pressa á öllum þjálfurum eftir þetta marga leiki og þetta rýra uppskeru?
Athugasemdir
banner