Níu úrvalsdeildarleikmenn í byrjunarliði Hollendinga
Það fara nokkrir leikir fram í lokaumferðunum í undankeppni Evrópuþjóða fyrir HM á næsta ári.
Spennan magnast þar sem Þýskaland og Slóvakía eiga bæði leiki en þau eru að keppast um toppsætið í A-riðli. Þýskaland heimsækir Lúxemborg á sama tíma og Slóvakía tekur á móti Norður-Írlandi.
Slóvakar væru á toppi riðilsins ef ekki fyrir óvænt tap í Norður-Írlandi í síðustu umferð. Þeir munu spila úrslitaleik við Þýskaland í lokaumferðinni með sigri á heimavelli í kvöld.
Úrvalsdeildarleikmennirnir Florian Wirtz og Nick Woltemade eru báðir í byrjunarliði Þjóðverja og mynda áhugaverða framlínu ásamt Leroy Sané og Serge Gnabry.
Joshua Kimmich, Kevin Schade og Malick Thiaw eru meðal varamanna.
Á sama tíma eigast Pólland og Holland við í toppslagi G-riðils. Hollendingar eru með þriggja stiga forystu og talsvert betri markatölu þegar tvær umferðir eru eftir. Von Pólverja á að ná toppsætinu er afar veik en þeir eru öruggir með annað sætið, sem veitir þátttökurétt í umspilinu, eftir tap Finna fyrr í dag.
Robert Lewandowski og Piotr Zielinski eru á sínum stað í byrjunarliði heimamanna ásamt Jakub Kiwior og Matty Cash, á meðan Ronald Koeman stillir upp hefðbundnu byrjunarliði Hollendinga sem er stútfullt af stórstjörnum.
Ryan Gravenberch og Frenkie de Jong sjá um miðjuna á meðan Justin Kluivert er í sóknarlínunni ásamt Donyell Malen, Cody Gakpo og markavélinni Memphis Depay. Fyrirliðinn Virgil van Dijk er á sínum stað í varnarlínunni ásamt úrvalsdeildarleikmönnunum Jurriën Timber, Micky van de Ven og Lutsharel Geertruida. Þá er Bart Verbruggen á milli stanganna. Níu af ellefu byrjunarliðsmönnum Hollands leika í ensku úrvalsdeildinni.
Að lokum spilar Króatía við Færeyjar í L-riðli. Frændur okkar frá Færeyjum þurfa sigur á erfiðum útivelli til að eiga afar óraunhæfa möguleika á því að stela öðru sæti riðilsins af Tékklandi, sem á heimaleik við stigalaust botnlið Gíbraltar í lokaumferðinni. Króatía er örugg með toppsæti riðilsins.
Luka Modric ber fyrirliðaband Króata og er Gunnar Vatnhamar, leikmaður Víkings R., í hjarta varnarinnar hjá Færeyjum. René Joensen, fyrrum leikmaður Grindavíkur, er einnig í byrjunarliðinu.
Þýskaland: Baumann, Baku, Anton, Tah, Raum, Pavlovic, Goretzka, Sane, Wirtz, Gnabry, Woltemade
Slóvakía: Dubravka, Gyomber, Skriniar, Obert, Hancko, Bero, Lobotka, Rigo, Duris, Strelec, Haraslin
Pólland: Grabara, Cash, Kedziora, Ziolkowski, Kiwior, Skoras, Szymanski, Zielinski, Zalewski, Kaminski, Lewandowski
Holland: Verbruggen, Geertruida, Timber, Van Dijk, Van de Ven, Gravenberch, De Jong, Kluivert, Malen, Gakpo, Memphis
Króatía: Livakovic, Stanisic, Vuskovic, Gvardiol, Marco Pasalic, Modric, Mario Pasalic, Perisic, Sucic, Musa, Kramaric
Færeyjar: Lamhauge, Færo, Vatnhamar, Edmundsson, Joensen, Turi, Andreasen, Davidsen, Frederiksberg, Olsen, Sörensen
Athugasemdir



