Ísland tapaði 2-0 gegn Úkraínu á pólska herstöðvarleikvanginum í Varsjá fyrr í kvöld og þar með endaði liðið í þriðja sæti D-riðils í undankeppni HM. Það er því orðið ljóst að draumurinn um HM á næsta ári er úti.
Landsliðsþjálfarinn Arnar Gunnlaugsson sagði á blaðamannafundi eftir leik að einbeitingarleysi hafi skipt sköpum í leiknum og sé ástæðan fyrir því að íslenska liðið fagni ekki í kvöld.
Lestu um leikinn: Úkraína 2 - 0 Ísland
„Mér leið nokkuð vel á hliðarlínunni. Við féllum fullmikið til baka í seinni hálfleik. Var það áætlunin? Nei, en þeir voru ekki beint að skapa sér mikið á þeim tímapunkti. Mómentið skiptist til og frá á einhverjum tíu mínútna kafla. Gulli á góðan skalla og markmaðurinn þeirra vel á ótrúlegan hátt, svo skora þeir mark. Hvorugt liðið var eitthvað mikið betra en hitt, þetta var spennuþrunginn leikur enda mikið í húfi.“
Arnar var því næst spurður hvort að honum fyndist liðið hafa fallið of djúpt til baka.
„Ég held að í alþjóðlegum fótbolta og þegar við keppum gegn svona þjóðum þá verðum við að virða það að þau kunna eitthvað fyrir sér í fótbolta. Það gerist í hvaða leik sem er og á hvaða stigi sem er að lið sem nægir jafntefli falli til baka og hitt liðið kastar öllu á þá. En þeir voru orðnir örvæntingarfullir, þeir voru að dæla ansi mörgum örvæntingarfullum boltum inn á teiginn. Ég er svekktastur með að hafa ekki nýtt skyndisóknarmöguleika og að hafa ekki nýtt betur föstu leikatriðin okkar. Mér leið ekkert illa á hliðarlínunni þó að við höfum verið lágvörn. Þetta var leikur sem 'swingaðist' þeirra megin með markinu sem kom upp úr nánast engu.“
Varstu ósáttur við fyrra markið?
„Já, því að við höfum fengið mikið af hornum á okkur í undankeppninni og varist þeim gríðarlega vel. Ég er ekki búinn að sjá þetta aftur en fyrsta tilfinningin er að gamlir góðir draugar fóru að ásækja okkur aftur, sem er einbeitingaleysi. Þegar þreytan er farin að segja til sín og menn þurfa að vera aðeins fljótari í svæðin sín. Þetta hefur verið hindrun í nokkur ár í íslenskum fótbolta að leikurinn er í 90 mínútur. Við höfum fengið mikið af mörkum á okkur á síðustu mínútunum í undankeppninni og það er ástæðan af hverju við erum ekki að fagna í kvöld.“


