Tilfinningarnar báru Troy Parrott ofurliði er hann ræddi við írska miðla eftir 3-2 sigurinn á Ungverjalandi sem skaut liðinu áfram í umspil heimsmeistaramótsins.
Parrott sendi Íra í raun í umspilið en hann skoraði öll mörk liðsins í þessum glugga, þar af tvö gegn Portúgal og síðan þessa ótrúlegu þrennu í Búdapest í kvöld.
Framherjinn var eðlilega meyrlyndur eftir leikinn, en hann segist aldrei hafa upplifað annað eins á ferlinum.
„Þetta er ótrúlega tilfinningaþrungið. Hvílíkt kvöld!“
„Þetta er ástæðan fyrir því að við elskum fótbolta, því svona hlutir geta gerst. Ég elska það að vera héðan og það er mér allt.“
„Fjölskyldan mín er hér og þetta er í fyrsta sinn í mörg ár sem ég felli tár. Ég hreinlega trúi þessu ekki.“
„Ég sagði það eftir leikinn gegn Portúgal að þetta er það sem draumar eru gerðir úr, en ég held að ég muni aldrei upplifa betra kvöld en þetta sem við upplifuðum í kvöld.“
„Þetta er ævintýri. Það er ekki einu sinni hægt að dreyma eitthvað þessu líkt. Ég bara finn ekki orðin til þess að lýsa tilfinningum mínum á þessari stundu,“ sagði Parrott.
Athugasemdir



