Heimir fékk mikla gagnrýni í fjölmiðlum á Írlandi eftir hörmulega byrjun á undankeppninni, þar sem Írar töpuðu meðal annars gegn botnliði riðilsins Armeníu og áttu ekki nema eitt stig eftir þrjár fyrstu umferðirnar. Hluti stuðningsmanna kallaði eftir brottrekstri Heimis en virðist hafa skipt um skoðun eftir þrjá sigra í röð. Það eru ekki 'alvöru vinir' eins og Heimir segir.
Heimir Hallgrímsson svaraði spurningum eftir frækinn endurkomusigur Írlands í úrslitaleik gegn Ungverjalandi í undankeppni HM í gær.
Írar lentu 2-1 undir í Ungverjalandi en náðu að koma til baka og stela sigrinum undir lok uppbótartímans. Troy Parrott var hetja Íra með þrennu.
Írar tryggðu sér annað sæti riðilsins með sigrinum og fara því áfram í umspil um sæti á HM.
„Við höfum alltaf trúað því að þetta lið getur komist á HM. Við erum með öll vopnin sem þarf til þess að komast á lokamótið og við ætlum að njóta stundarinnar eftir þennan sigur. Það eru gríðarlega mikilvægir leikir framundan," sagði Heimir sallarólegur að leikslokum.
„Við erum á jákvæðri braut. Leikurinn gegn Portúgal var líklega sá stærsti sem þessir leikmenn hafa spilað í írsku landsliðstreyjunni og svo spiluðu þeir ennþá stærri leik í dag gegn Ungverjum. Við sigruðum andstæðinga okkar sem þýðir að framundan er enn stærri leikur og ef við vinnum hann þá kemur enn stærri leikur næst þar á eftir og ef við vinnum hann þá förum við á HM! Við vitum ekki hvar, hvenær eða gegn hverjum næsti leikur verður en við erum spenntir.
„Við verðum að nýta þessa stund til þess að átta okkur á því nákvæmlega hvað það var sem skóp þessa dýrmætu sigra. Við verðum að nýta stundina til þess að þakka öllum þeim sem hafa stutt við okkur í gegnum undankeppnina. Öllu fólkinu sem hefur trúað á þetta lið. Við verðum að þakka því fólki fyrir útaf því að á svona stundum þá eigum við allir voðalega mikið af vinum, en það eru ekki alvöru vinir sem munu svo hringja í þig og hjálpa þér á erfiðu tímunum þegar þú tapar leikjum. Þetta er rétta stundin til að þakka fólkinu fyrir sem hefur stutt okkur í gegnum súrt og sætt. Alvöru stuðningsmenn sem voru til staðar á erfiðu tímunum, þeir eiga skilið hrós í dag."
Athugasemdir



