Körfuboltamaðurinn Kristófer Acox vandar knattspyrnudeild Vals ekki kveðjurnar í kommentakerfinu undir yfirlýsingu félagsins á Facebook í dag.
Valur tilkynnti í dag að margir reyndir leikmenn væru á förum frá félaginu.
Fanndís Friðriksdóttir, Natasha Anasi, Arna Sif Ásgrímsdóttir, Jordyn Rhodes og Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir eru allar á förum frá félaginu.
Stórir póstar sem eru á förum og þá hefur félagið samið við efnilega leikmenn ásamt því að sækja nokkra yngri og efnilegri stelpur.
Kristófer, sem spilar með Val í körfunni, veltir því fyrir sér hvað þessar ákvarðanir munu gera liðinu þegar horft er til framtíðar.
„Það verður mjög áhugavert að sjá hvernig það mun ganga að keppast um titla næstu árin, eða hvort að liðið muni hreinlega bara festast í neðri deildum, miðað við ákvarðanatökur stjórnar varðandi þetta frábæra kvennalið sem hefur einhliða haldið uppi sigurhefð hjá þessari fótboltadeild félagsins síðustu ára,“ skrifaði Kristófer á Facebook.
Guðrún Elísabet er kærasta Kristófers en samningur hennar rennur út um áramótin og stendur ekki til að framlengja við hana frekar en hina leikmennina sem eru farnir.
Athugasemdir



