Stjarnan hefur komist að samkomulagi við enska varnarmanninn Steven Caulker um að rifta samningi hans við félagið, bæði sem leikmaður og þjálfari, en þetta kemur fram í tilkynningu Stjörnumanna í dag.
Þessi reyndi varnarmaður samdi við Stjörnuna í byrjun júní og hafði strax veruleg áhrif á liðið.
Hann átti stóran þátt í að hjálpa liðinu að sækja Evrópusæti á lokasprettinum.
Caulker er eitt stærsta nafn sem spilað hefur á Íslandi, en hann lék með liðum á borð við Liverpool, Tottenham, Fenerbahce, Cardiff City og QPR á löngum leikmannaferli sínum.
„Stjarnan þakkar Steven Caulker innilega fyrir framlag hans og óskar honum velfarnaðar í komandi verkefnum,“ segir í tilkynningu Stjörnunnar.
Caulker lék ellefu leiki í Bestu deildinni í sumar, en hann leitar nú á ný mið. Hann hefur lengi talað um að vilja fara upp metorðastigann í þjálfun og verður gaman að fylgjast með ævintýrum hans í framtíðinni.
Athugasemdir



