„Það eru komnir tíu dagar síðan við sömdum og við erum farnir að æfa, þetta fer vel af stað,“ segir Brynjar Björn Gunnarsson nýráðinn þjálfari Leiknis.
Brynjar, sem var ráðinn fyrir rúmri viku, tekur við starfinu af Ágústi Gylfasyni sem lét af störfum eftir síðasta tímabil, en liðið endaði í níunda sæti í Lengjudeildinni í sumar.
„Þetta átti sér smá aðdraganda, við töluðum saman í sumar áður en ég fór til Víkings. Svo hittumst við aftur í haust, þetta var eiginlega óvenju langur aðdragandi. En þegar menn setjast niður og taka ákvörðun er þetta fljótt að gerast.“
„Þetta var fyrsta vikan, ég er búinn að stýra þremur æfingum. Við erum búnir að vera heppnir með veður, það hefur hjálpað. En þetta hefur gengið vel. Mér líst vel á hópinn, maður er enn þá að meta hann. Ég reyni að vera kominn með mótaðan hóp um miðjan janúar sem maður getur séð fyrir sér að fara inn í mót.“
Þótt enn sé langt í mót, hvert er markmiðið?
„Við erum í uppbyggingu, einhvers konar endurskipulagi. En eins og deildin er að spilast og eins og hún er lögð upp í dag, þá held ég að eigi nánast öll lið möguleika í þessa topp fimm baráttu. Deildin var svolítið tvískipt í sumar, liðin voru með mörg stig í fimmta sæti. Hún (deildin) hefur spilast svolítið öðruvísi eftir að umspilið kom.“
„Á bæði þar síðasta tímabili og því síðasta skorti ákveðinn stöðugleika. Þjálfarar hættu á miðju tímabili og liðið hefur af einhverjum ástæðum dregist niður í neðri hluta töflunnar. Markmiðið er að snúa því við.“
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.






















