Jeremy Doku, leikmaður Manchester City og belgíska landsliðsins, sætti sig ekki við afsakanir eftir 1-1 jafnteflið gegn Kasakstan í undankeppni HM, en hann segir að Belgía hafi átt að gera mun betur í þeim leik.
Belgum mistókst að tryggja HM-sætið gegn Kasakstan og varð jafntefli niðurstaðan.
Kasakstan hefur komið á óvart í undankeppninni og er með átta stig, en Belgía á toppnum með 15 stig.
Marga lykilmenn vantaði í lið Belga en Doku segir að það hafi ekki átt að skipta svona miklu máli.
„Fólk þarf að hætta að tala um fjarveru Romelu Lukaku, Kevin de Bruyne og Thibaut Courtois. Ef við þurfum þá til að vinna leiki sem þessa þá höfum við ekkert erindi á HM. Allir þurfa að gera betur. Ég, þjálfarinn og allir hinir,“ sagði Doku eftir leikinn.
Belgía fær annað tækifæri til að koma sér á HM er það tekur á móti Liechtenstein á þriðjudag. Sigur þar og farseðillinn er kominn í hendur Belga.
Athugasemdir


