Arsenal og Man Utd vilja Adeyemi - Stórveldi á eftir miðjumanni AZ - PSG vill Vinícius á frjálsri sölu 2027 - Newcastle skoðar Trafford
   lau 15. nóvember 2025 12:00
Ívan Guðjón Baldursson
Ósáttur með rúmenska dómarann og þjálfara Slóvakíu
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Michael O'Neill þjálfari norður-írska landsliðsins var ósáttur með dómgæsluna eftir 1-0 tap í Slóvakíu í undankeppni HM í gærkvöldi.

Norður-Írar eru úr leik í undankeppninni eftir tapið en munu þrátt fyrir það fara áfram í umspil þökk sé góðum árangri í Þjóðadeildinni fyrr á árinu.

Eina mark leiksins í Slóvakíu kom í uppbótartíma, en Slóvakar voru búnir að koma boltanum tvisvar áður í netið í venjulegum leiktíma en ekki dæmt mark eftir nánari athugun í VAR.

O'Neill þjálfari vildi einnig sjá þriðja markið dæmt af vegna atviks í aðdragandanum þar sem leikmaður Slóvakíu ýtti miðverðinum sterka Daniel Ballard úr vegi áður en boltinn fór netið.

Hann kvartaði í rúmenska dómara leiksins István Kovács en fékk gult spjald að launum. Nokkru síðar fékk Ballard einnig að líta sitt annað gula spjald og var rekinn af velli.

„Ég sagði við dómarann að hann þyrfti að vera sterkari og hann gaf mér gult spjald. Ég labbaði að honum til að taka í höndina á honum og segja honum að vera sterkari. Þetta var mjög augljós bakhrinding í hornspyrnunni, hann ýtti Daniel Ballard með báðum höndum," sagði O'Neill að leikslokum.

„Hin mörkin voru réttilega dæmd af, í fyrra skiptið var þetta augljóslega rangstaða og seinna skiptið var hendi. Dómarinn var búinn að taka tvö mörk af þeim og hefur ekki þorað að dæma þriðja markið af. Þess vegna sagði ég honum að vera sterkari."

Ballard fékk seinna gula spjaldið sitt seint í uppbótartíma og er O'Neill ósáttur með hegðun þjálfarateymis slóvakíska landsliðsins.

„Seinna gula spjaldið sem Daniel fékk er brandari. Slóvakíska þjálfarateymið átti sinn þátt í að orsaka það. Dómarinn gerði mistök, en þetta er góður og reynslumikill dómari sem hefur dæmt úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Hann gerði mistök.

„Það var augljóslega allt undir hjá Slóvakíu, maður gat séð það á hegðun starfsteymis þeirra undir lok leiksins. Það voru vonbrigði þegar þjálfarinn þeirra tók ekki í höndina á mér að leikslokum.

„Þegar allt kemur til alls þá óskum við Slóvakíu til hamingju því þeir fara til Þýskalands í lokaumferðinni og fá þar tækifæri til að vinna riðilinn."


Slóvakar eiga 12 stig fyrir lokaumferðina, alveg eins og Þjóðverjar. Þjóðirnar eigast því við í úrslitaleik um toppsæti A-riðils á Red Bull leikvanginum í Leipzig.

Þjóðverjum nægir jafntefli á meðan Slóvakar þurfa á sigri að halda, þrátt fyrir sigur í fyrri innbyrðisviðureign liðanna sem fór fram í Slóvakíu.
Athugasemdir
banner