Ísland er 45 mínútum plús uppbót frá því að komast í umspil heimsmeistaramótsins en staðan í leik Íslands og Úkraínu er markalaus þegar síðari hálfleikur var að hefjast.
Lestu um leikinn: Úkraína 2 - 0 Ísland
Landsliðið náði að standa af sér pressu Úkraínu í fyrri hálfleiknum, en Úkraína átti allar bestu tilraunir hálfleiks og það besta er Viktor Tsygankov átti hörkuskot í þverslá rétt fyrir utan teig.
Sóknarlega hefur vantað upp á herslumuninn hjá íslenska liðinu, en vonandi verður bæting á því í síðari hálfleiknum.
„Ekkert sérstaklega. Við erum búnir að halda hreinu en við erum ekkert voðalega líklegir til að skora. Þeir hafa ekki átt mörg dauðafæri en það hafa verið varnarlegir feilar hjá okkur sem verða til þess að þeir séu líklegri,“ sagði Kári Árnason í settinu á Sýn Sport.
„Þetta er allt í lagi en þetta er ekki að virka með Albert úti. Við erum ekki mikið með boltann þannig Albert er ekki að komast í hálfsvæði sem við viljum að hann sé í.“
Lárus Orri vildi gera nokkrar breytingar á liðinu og fá meðal annars Stefán Teit Þórðarson inn á miðjuna.
„Þetta er ekki að virka nógu vel og mikil hætta að skapast fyrir framan boxið. Albert er í hlaupum fram og til baka í einhverri varnarstöðu. Við erum að skammast yfir að Albert og Hákon séu ekki að verjast nógu vel í teignum okkar. Það væri eins og ég væri að rífa mig yfir því að Sverrir væri ekki að gera nógu vel í sóknarfæri. Þetta eru rangir menn á röngum stöðum á vellinum. Ég vil fá Albert þar sem Brynjólfur er núna og Stefán inn á miðjuna milli Ísaks og Hákonar og verðum að fara loka á þetta fyrir framan vörnina hjá okkur. Ég sagði rétt fyrir hálfleik varðandi hvað þreyta hefur áhrif og við erum að verða þreyttir. Við erum endalaust að verjast og ná ekki að halda boltanum, hvíla okkur og þá verður þetta erfitt.“
„Ef við fáum mark og hlutirnir fara að ganga betur þá er miklu auðveldara finnum við þennan auka tank. Þetta lítur ekkert allt of vel út núna og er ekkert allt of bjartsýnn. Við náum ekkert að pressa þá,“ sagði Lárus Orri.
Athugasemdir

