| sun 16.nóv 2025 10:00 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|
UTAN VALLAR: Greiðslur íslenskra félaga til umboðsmanna
Þegar stór félagaskipti eiga sér stað í fótboltaheiminum fylgja gjarnan orðrómar um það hvað umboðsmaðurinn fékk í sinn hlut fyrir félagaskiptin. Í ársreikningum íslenskra knattspyrnufélaga er gefið upp hve mikið er greidd til umboðsmanna.
Greinin var einnig birt á utanvallar.is
Árið 2024
Tólf knattspyrnufélög gjaldfærðu greiðslur til umboðsmanna í sínum ársreikningum árið 2024. Breiðablik greiddi hæstu fjárhæðina, rúmar 4,7 milljónir króna, á meðan Fjölnir greiddi lægstu fjárhæðina, 150 þúsund krónur. Í heildina greiddu íslensk knattspyrnufélög umboðsmönnum samtals 23.489.234 krónur á síðasta ári. Þessar fjárhæðir eru ekki háar í samanburði við rekstrargjöld félaganna. Hæsta hlutfallið var hjá Fram en þar fór 1,0% af rekstrargjöldum þeirra í greiðslur til umboðsmanna. Heilt yfir er hlutfall greiðslna til umboðsmanna af rekstrargjöldum að meðaltali 0,5%.
Topp 10 listinn
Greiðslur Breiðabliks til umboðsmanna árið 2024 er þó ekki það mesta sem íslensk knattspyrnufélag hefur greitt til umboðsmanna á fjárhagsári. Þegar greiðslur íslenskra félaga undanfarin ár eru núvirtar má sjá að greiðslur Breiðabliks í fyrra myndu skipa 6. sætið á listanum. Á toppnum trónir Víkingur sem eyddi 12,3 milljónum króna í umboðslaun árið 2023, að núvirði einhverjar 12,9 milljónir krónur. Þá kemur Valur oftast fyrir á þessum lista, eða alls fimm sinnum.


