Thomas Frank, núverandi þjálfari Tottenham, segir frá því þegar hann fór í viðræður við Manchester United og Chelsea með tveggja klukkustunda millibili í fyrra.
Frank ræddi við danska miðilinn TV 2 Sport í miðju landsleikjahlé og var spurður út í viðræður sem hann fór í við stórveldin tvö í maí 2024.
Frank var þjálfari Brentford á þeim tíma en Man Utd var að horfa í kringum sig til að finna mögulegan arftaka fyrir Erik ten Hag á meðan Chelsea vantaði mann til að fylla í skarðið fyrir Mauricio Pochettino.
Rauðu djöflarnir biðu að lokum með að reka Ten Hag og ákvað Chelsea að ráða Enzo Maresca í þjálfarastarfið hjá sér.
„Að setjast niður fyrir viðtöl við tvö af tíu stærstu félagsliðum heims með tveggja tíma millibili var mjög sérstakt," sagði Frank.
„Ég veit að ég fékk hvorugt starfið, en þetta var samt mjög stórt fyrir mig. Ég man hvað ég hugsaði þegar ég labbaði í gegnum Battersea Park til að fara úr einu viðtalinu í annað: 'Thomas Frank frá Frederiksværk - er þetta í alvörunni að gerast fyrir mig?'"
Frank er að gefa út sjálfsævisögu og þar er hluti sem segir frá því þegar hann hitti Sir Jim Ratcliffe að morgni til 24. maí 2024 í bílskúrnum hans í London. Hann fór þaðan yfir á Radisson Mayfair hótelið til að hitta stjórnendur Chelsea.
Frank var áfram við stjórnvölinn hjá Brentford í eitt ár til viðbótar áður en hann var ráðinn til Tottenham í júní á þessu ári.
Hann hefur átt þokkalega byrjun hjá Tottenham og er liðið í 5.-9. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, með 18 stig eftir 11 umferðir.
Athugasemdir


