„Ég er orðin alveg fáránlega spennt," segir Hanna Símonardóttir um opnunarleikinn í Bestu deildinni. Þetta er mjög sérstakur leikur fyrir hana þar sem hún á syni í báðum liðum. Anton Ari Einarsson ver mark Breiðabliks og þjálfari Aftureldingar er Magnús Már Einarsson; þeir eru bræður og synir Hönnu.
Hanna er mikil fótboltaáhugakona og fer á alla leiki Breiðabliks og Aftureldingar.
Hanna er mikil fótboltaáhugakona og fer á alla leiki Breiðabliks og Aftureldingar.
„Það að ég sé að fara á fyrsta leik Aftureldingar í efstu deild í sögunni er búið að vera í allan vetur að síast inn. Svo núna þegar við erum á fljúgandi siglingu að undirbúa heimavöllinn og fyrsti leikur handan við hornið þá skellur þetta aðeins meira á manni og niðurstaðan er bara þvílíkur spenningur."
Hann er með sterkari tengingu við Aftureldingu en hún styður bæði lið jafnmikið í opnunarleiknum.
„Ég held alveg 100% jafnt með báðum. Auðvitað á Afturelding risa stað í mínum beinum, en það að hafa fylgt Antoni á nánast hvern einasta leik hvar sem er í heiminum alla tíð, þá held ég algjörlega jafn mikið með Breiðabliki í leiknum."
Saumar sína eigin treyju
Hanna er búin að gera sérstakar ráðstafanir varðandi treyju á leiknum en hún er að sauma sína eigin. Hún ætlar þá að sitja í miðri stúkunni.
„Ég er að sauma mína eigin treyju, hún styður bæði liðin fullkomlega jafnt. Hönnunin vísar í stuðning við óteljandi marga fóstursyni mína, sem mér líður svolítið eins og heimurinn hafi snúið baki við. Ég er mjög ánægð með þá treyju og hlakka til að mæta í henni," segir Hanna.
„Ég reikna með að sitja mitt á milli stuðningsmanna beggja liða. Margir hafa lagt það til við mig að sitja meðal heimamanna í hvorri umferð fyrir sig, en ég reikna frekar með að sitja mitt á milli í báðum leikjum."
Vonast eftir markalausu jafntefli
Anton hefur lengi verið einn besti markvörðurinn í Bestu deildinni en núna er Magnús Már mættur í deildina sem þjálfari Aftureldingar. Hvernig er það að hafa bræðurna báða í deildinni?
„Þetta er náttúrlega bara algjör veisla. Ég er mjög þakklát fyrir þau algjör forréttindi að fá að hafa fylgjast með þeim komast á þennan stað og ganga svona vel. Ég samgleðst þeim innilega og hlakka þvílíkt til," segir Hanna en hvernig spáir hún leiknum?
„Ég spái 0 - 0. Ég óska mér þess að báðir leikirnir milli þessara liða í sumar fari 0 - 0 en bæði liðin vinni alla aðra leiki."
Athugasemdir