Man Utd reynir við Mbeumo - Arsenal og City hafa áhuga á Rodrygo - Real Madrid horfir til leikmanna í ensku deildinni
   mán 05. maí 2025 14:51
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Margir leikmenn Stólanna enn samningslausir - „Finnst miður að heyra þessa umræðu"
Kvenaboltinn
Tindastóll er með þrjú stig eftir fjóra leiki.
Tindastóll er með þrjú stig eftir fjóra leiki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það tók langan tíma að endursemja við Donna, þjálfara liðsins, í vetur.
Það tók langan tíma að endursemja við Donna, þjálfara liðsins, í vetur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bryndís Rut Haraldsdóttir, fyrirliði Tindastóls. Hún er ein af þeim leikmönnum sem er ekki með samning.
Bryndís Rut Haraldsdóttir, fyrirliði Tindastóls. Hún er ein af þeim leikmönnum sem er ekki með samning.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tindastóll hefur spilað vel í Bestu deild kvenna hingað til í sumar og þær ættu að vera með fleiri stig en þær eru með. Liðið er aðeins með þrjú stig en hefur spilað að mörgu leyti vel.

Það er athyglisvert hversu vel hefur gengið miðað við hvernig staðan var á liðinu í vetur. Það gekk illa að semja við þjálfarateymið og íslenska kjarnann í liðinu. Flestar af íslensku leikmönnunum eru ekki á samning ennþá en eru þrátt fyrir það að spila með liðinu.

„Þær lúkka vel miðað við hvað maður heyrir að sé í gangi," sagði undirritaður í Uppbótartímanum, nýjum hlaðvarpsþætti um kvennaboltann á Íslandi.

„Ef við tökum fyrst spilamennskuna. Útlendingarnir og blandan í liðinu, hún fær tíu. Við gætum setið hérna og verið að ræða það að Tindastóll væri með níu stig eftir þrjár umferðir," sagði Magnús Haukur Harðarson.

Íslenskur kjarni liðsins eru flestar ekki með samning og þar á meðal er fyrirliðinn Bryndís Rut Haraldsdóttir. Þetta er vægast sagt athyglisvert en þegar Fótbolti.net hefur reynt að sækjast eftir svörum hjá fólki á bak við tjöldin hjá Tindastóli, þá hefur það ekki viljað tjá sig um samningamálin. Þetta truflar eflaust leikmenn og þjálfara liðsins.

„Ég meina, eru þessir leikmenn tryggðir? Ef þú ert ekki með skráðan samning þá geturðu lent í vandræðum ef þú meiðist illa. Við vitum alveg að það eru peningar í Skagafirðinum, nóg af þeim," sagði Maggi.

„Kvennaliðið á að vera stolt félagsins í fótboltanum," sagði undirritaður. „Það eru íslenskir leikmenn sem hafa staðið vaktina þarna heldur betur. Mér finnst miður að heyra þessa umræðu, hvernig er komið fram. Þú ert að leggja líf þitt og limi að veði fyrir félagið þitt. Félög þurfa líka að sýna heillindi og standa með leikmönnum. Þetta er því miður alltof algengt," sagði Magnús en hann telur að fallið geti orðið hátt ef Tindastóll fellur í sumar, fyrst þetta er í gangi núna.

„Kaupfélag Skagfirðinga hlýtur að geta gert eitthvað. Ekki eru karla- og kvennalið Tindastóls í körfubolta ódýr," sagði Magnús jafnframt og bætti við: „Risastórt hrós á Donna og leikmennina sem eru ekki á samning. Við erum ekki að tala um milljónir. Ég veit það að einn leikmaðurinn þarna var að fá borgað 50 þúsund krónur á mánuði. Þetta eru upphæðir sem Skagfirðingar ættu að drífa sig í að klára. Þetta kvennalið er hornsteinn fótboltans þarna."

Hallór Jón Sigurðsson, þjálfari Tindastóls, og Bryndís Rut, fyrirliði, voru í viðtali hér á Fótbolta.net fyrir mót þar sem þau ræddu aðeins um stöðuna hjá félaginu. Hægt er að hlusta á það spjall með því að smella hérna. Donni sagði nýverið í viðtali við Vísi að það væri ekki til ein einasta króna í kvennaboltanum á Sauðárkróki.

„Ég vildi óska þess að við gætum fengið töluvert af leikmönnum en það er bara ekki til nokkur einasta króna á Sauðárkróki, allavega í kvennafótbolta," sagði Donni.
Uppbótartíminn - Íslenski kvennaboltinn á mannamáli
Athugasemdir
banner
banner