Man Utd reynir við Mbeumo - Arsenal og City hafa áhuga á Rodrygo - Real Madrid horfir til leikmanna í ensku deildinni
   mán 05. maí 2025 13:05
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
HB hefur heyrt í Arnari - „Ekkert útilokað"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þjálfarateymi HB í Færeyjum óskaði um helgina eftir því að láta af störfum hjá félaginu og stjórn félagsins samþykkti það. Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins á heimasíðu þess. Ítalski þjálfarinn Adolfo Sormani tók við árið 2023 og var honum og hans teymi þakkað fyrir sín störf. Liðið endaði í 3. sæti í deildinni í fyrra og varð bikarmeistari.

HB er níu stigum á eftir toppliðunum NSÍ og KÍ eftir átta umferðir og úr leik í bikarnum. HB tapaði 1-7 fyrir NSÍ á heimavelli á laugardag. Andre Olsen stýrir HB til bráðabirgða.

Arnar Grétarsson hefur verið orðaður við starfið hjá HB og Fótbolti.net ræddi við hann í dag.

„Ég hef heyrt í þeim, svo kemur bara í ljós hvernig hlutirnir þróast," segir Arnar.

Hefðir þú áhuga ef þeir myndu bjóða þér samning?

„Það er náttúrulega að mörgu að huga þegar þú hoppar eitthvað út. En þetta er klárlega eitthvað sem maður myndi hugsa um. Þetta er stærsti klúbburinn í Færeyjum en hefur verið í smá ströggli núna. Þetta er aðeins lengra en að fara til Akureyrar," sagði Arnar léttur.

„Stundum í fótbolta fer maður út fyrir landsteinana, ég hef gert það oftar ein einu sinni. Þetta er því ekkert útilokað, en er ekkert komið það langt."

Staðan er ekki þannig í dag að þú átt skipulagðan fund með þeim á morgun eða eitthvað svoleiðis?

„Nei. Ég hef alveg spjallað við þá, en ekkert meira um það að segja að svo stöddu. Ég veit ekki hvað verður," segir Arnar.

Arnar, sem er fyrrum landsliðs- og atvinnumaður, hefur á sínum þjálfaraferli þjálfað Breiðablik, Roeselare í Belgíu, KA og síðast Val þar til í ágúst í fyrra. Hann hefur einnig starfað sem yfirmaður fótboltamála hjá AEK Aþenu og svo yfirmaður íþróttamála hjá Club Brugge fyrir rúmum áratug.
Athugasemdir
banner
banner