fös 04.apr 2025 12:00 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|

Spá Fótbolta.net fyrir Bestu deildina: 1. sæti
Sérfræðingar Fótbolta.net spá því að Breiðablik muni verja Íslandsmeistaratitil sinn í sumar. Álitsgjafar spá í deildina en þeir raða liðunum upp í röð og það lið sem er í efsta sæti fær 12 stig, annað sæti 11 og svo koll af kolli niður í tólfta sæti sem gefur eitt stig. Það munaði litlu á Breiðabliki og Víkingum, en Blikar enduðu á toppnum í spánni.
Halldór Árnason varð Íslandsmeistari á sínu fyrsta tímabili sem aðalþjálfari Blika.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
1. Breiðablik, 138 stig
2. Víkingur R., 136 stig
3. Valur, 114 stig
4. KR, 104 stig
5. Stjarnan, 102 stig
6. ÍA, 84 stig
7. FH, 62 stig
8. KA, 60 stig
9. Fram, 58 stig
10. Afturelding, 37 stig
11. Vestri, 27 stig
12. ÍBV, 14 stig
Um liðið: Breiðablik kom, sá og sigraði í fyrra. Þeir urðu Íslandsmeistarar eftir hreinan úrslitaleik gegn Víkingum í lokaumferðinni. Fyrr á tímabilinu var ekki útlit fyrir það að Blikar myndu standa uppi sem meistarar en á köflum virtist hreinlega sem þeim langaði ekki að fara á toppinn. Það var verið að bjóða þeim í dans og þeir voru ekki tilbúnir til að stíga hann. En svo allt í einu breyttist það. Staðan breyttist eftir tapleik gegn FH í Kaplakrika en þá fór allt að tikka hjá Blikum og þeir enduðu á því að endurheimta Íslandsmeistaratitilinn. Þeir verðskulduðu það svo sannarlega, voru klárlega besta liðið í lokin.
Þjálfarinn: Halldór Árnason tók við Breiðabliki fyrir síðasta tímabil og gerði sér lítið fyrir með því að vinna Íslandsmeistaratitilinn á sínu fyrsta tímabili sem þjálfari liðsins. Hann þekkti leikmenn liðsins vel eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari Óskars Hrafns Þorvaldssonar í nokkur ár með liðið. Þar áður var hann aðstoðarþjálfari Óskars í Gróttu og náðu þeir mögnuðum árangri saman. Halldór á ekki stórkostlegan feril að baki sem leikmaður. Hann lék í yngri flokkum með KR og spilaði svo í meistaraflokki með Gróttu og KV. Hann hafði alltaf ástríðu fyrir fótbolta og hefur náð frábærum árangri sem þjálfari.
Styrkleikar: Þeir eru svo sannarlega margir. Eins og hjá Víkingum, þá hefur verið mikill stöðugleiki hjá Breiðabliki síðustu árin - bæði í leikmanna- og þjálfaramálum. Þegar Óskar Hrafn hætti störfum, þá tók aðstoðarmaður hans við og hélt vegferðinni áfram með aðeins öðruvísi áherslum sem virkuðu býsna vel. Leikmannahópurinn er ótrúlega vel mannaður og þeir sem stjórna hjá félaginu hafa ekki sofið á verðinum í vetur. Leikmannaglugginn hjá Blikum hefur verið í hæsta klassa og sterkir leikmenn hafa bæst við hópinn. Þetta eru líka hungraðir leikmenn sem vilja koma sér lengra. Breiðablik tapaði aðeins einum leik á heimavelli í fyrra og var besta heimavallarlið deildarinnar. Það er erfitt að mæta á Kópavogsvöll og sækja eitthvað þar.
Veikleikar: Eins og með Víkingana, þá er erfitt að finna veikleika fyrir þetta Breiðablikslið. Þetta eru tveir turnar í íslenskum fótbolta í dag. Það er kannski helst það að Damir Muminovic mun allavega ekki byrja tímabilið með Blikum. Hann og Viktor Örn Margeirsson voru stórkostlegir saman í fyrra og það er óvíst hver mun byrja tímabilið í hjarta varnarinnar með Viktori. Það eru góðir möguleikar en það gæti tekið tíma að finna rétta kostinn. Það hefur reynst erfitt fyrir lið að verja titilinn síðustu ár og leikjaálagið gæti orðið rosalegt ef Blikar fara langt í Evrópu, sem er býsna líklegt miðað við meistaraliðin hér á Íslandi síðustu ár. Blikar misstu þá Ísak Snæ Þorvaldsson, sem var þeirra besti maður undir lokin og þeir þurfa að fylla hans skarð sem er alls ekki auðvelt.
Lykilmenn: Anton Logi Lúðvíksson og Höskuldur Gunnlaugsson
Það komust tveir leikmenn Breiðabliks á listann yfir tíu bestu leikmenn deildarinnar hér á Fótbolta.net, á lista sem var birtur í gær. Það voru þessir tveir leikmenn. Anton Logi er kominn aftur heim eftir eitt ár í atvinnumennsku í Noregi. Anton Logi sýndi það síðast þegar hann spilaði á Íslandi hversu góður hann og hann er líklega ótrúlega fjölhæfur, getur leyst margar stöður. Höskuldur var valinn besti leikmaður Íslandsmótsins í fyrra og hann er hjartað í þessu Blikaliði, þeirra leiðtogi. Átti sitt besta tímabil í fyrra og það verður gaman að sjá hvort að hann geti haldið því gæðastigi í ár.
Gaman að fylgjast með: Óli Valur Ómarsson
Það eru alltaf ungir og spennandi leikmenn að koma upp hjá Breiðabliki en undirritaður er spenntastur fyrir því að sjá Óla Val hjá Kópavogsfélaginu í sumar. Það var mikil dramatík í kringum það þegar Óli valdi að fara í Breiðablik. Bæði Blikar og Stjarnan fengu samþykkt tilboð í hann en hann valdi Blika frekar en uppeldisfélagið og það voru Stjörnumenn ekki sáttir með. Breiðablik lagði mikið á sig til að landa Óla Vali og það eru miklar væntingar gerðar til hans í sumar. Hann þarf að eiga gott sumar og það eru góðar líkur á því. Með gríðarlegan hraða og mikla tækni sem verður gaman að fylgjast með í sumar.
Spurningamerkin: Ná þeir að vera fyrsta liðið í mörg ár til að verja titilinn? Hvernig gengur Tobias Thomsen að fylla í skarð Ísak Snæs? Hver verður í miðverði með Viktori?
Völlurinn: Það er alltaf gaman að fara á Kópavogsvöll og horfa á góðan fótbolta. Það er líka oftast haldið vel utan um fjölmiðlamenn á vellinum sem er alltaf kostur. Það er yfirleitt skemmtileg stemning og sérstaklega þá ef Víkingar eru í heimsókn. Kvöldsólin á Kópavogsvelli er falleg og má búast við hrikalega skemmtilegum opnunarleik þegar Afturelding mætir á svæðið á morgun.
Komnir:
Tobias Thomsen frá Portúgal
Óli Valur Ómarsson frá Sirius (var á láni hjá Stjörnunni)
Anton Logi Lúðvíksson frá Haugesund
Valgeir Valgeirsson frá Örebro
Ágúst Orri Þorsteinsson frá Genoa
Dagur Örn Fjeldsted frá HK (var á láni)
Ásgeir Helgi Orrason frá Keflavík (var á láni)
Farnir:
Ísak Snær Þorvaldsson til Rosenborg (var á láni)
Damir Muminovic til Asíu
Patrik Johannesen til KÍ/Klaksvík
Alexander Helgi Sigurðarson í KR
Oliver Sigurjónsson í Aftureldingu
Benjamin Stokke til Noregs
Arnór Sveinn Aðalsteinsson hættur og tekinn við sem aðstoðarþjálfari

Leikmannalisti:
1. Anton Ari Einarsson
2. Daniel Obbekjær
4. Ásgeir Helgi Orrason
6. Arnór Gauti Jónsson
7. Höskuldur Gunnlaugsson
8. Viktor Karl Einarsson
9. Óli Valur Ómarsson
10. Kristinn Steindórsson
11. Aron Bjarnason
12. Brynjar Atli Bragason
13. Anton Logi Lúðvíksson
15. Ágúst Orri Þorsteinsson
16. Dagur Örn Fjeldsted
17. Valgeir Valgeirsson
18. Davíð Ingvarsson
19. Kristinn Jónsson
21. Viktor Örn Margeirsson
23. Kristófer Ingi Kristinsson
24. Viktor Elmar Gautason
25. Tumi Fannar Gunnarsson
29. Gabríel Snær Hallsson
30. Andri Rafn Yeoman
31. Gunnleifur Orri Gunnleifsson
33. Gylfi Berg Snæhólm
39. Breki Freyr Ágústsson
77. Tobias Bendix Thomsen
Fyrstu fimm leikir Breiðabliks:
5. apríl, Breiðablik - Afturelding (Kópavogsvöllur)
13. apríl, Fram - Breiðablik (Lambhagavöllurinn)
23. apríl, Breiðablik - Stjarnan (Kópavogsvöllur)
27. apríl, Vestri - Breiðablik (Kerecisvöllurinn)
5. maí, Breiðablik - KR (Kópavogsvöllur)
Spámennirnir: Anton Freyr Jónsson, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Haraldur Örn Haraldsson, Jóhann Þór Hólmgrímsson, Kári Snorrason, Stefán Marteinn Ólafsson, Sverrir Örn Einarsson, Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke, Sölvi Haraldsson, Tómas Þór Þórðarson og Valur Gunnarsson.
Athugasemdir