Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
banner
   sun 04. júlí 2021 18:15
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Stórmót og atvinnumennska - „Það sem ég hef viljað frá því ég byrjaði að æfa"
Hákon á eftir að spila tvo leiki með Gróttu áður en hann fer til Elfsborg.
Hákon á eftir að spila tvo leiki með Gróttu áður en hann fer til Elfsborg.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Hákon á að baki tvo leiki fyrir yngri landslið Íslands.
Hákon á að baki tvo leiki fyrir yngri landslið Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Úr leik í fyrra: Ég lærði heilmikið á þessu tímabili
Úr leik í fyrra: Ég lærði heilmikið á þessu tímabili
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Hákon við hlið Elíasar Rafns.
Hákon við hlið Elíasar Rafns.
Mynd: Fótbolti.net - Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Á U19 æfingu árið 2019.
Á U19 æfingu árið 2019.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hákon Rafn Valdimarsson er að ganga í raðir sænska félagsins Elfsborg frá Gróttu. Hákon heldur utan þann 12. júlí og kemur inn í hópinn hjá Elfsborg inn á miðju tímabili í Allsvenskan.

Hákon er nítján ára markvörður sem uppalinn er hjá KR og Gróttu. Hann fór í Gróttu árið 2015 og árið 2018 var hann orðinn aðalmarkvörður liðsins í 2. deild og hefur verið síðan.

Fótbolti.net hafði samband við Hákon og spurði hann út í skiptin og ýmislegt fleira.

Rétti tímapunkturinn til að taka næsta skref
Hvernig líst þér á að vera búinn að semja við Elfsborg?

„Mér líst bara mjög vel á það, ég æfði með þeim í viku í nóvember og leist mjög vel á félagið sjálft og allt umhverfið," sagði Hákon.

Er þetta ákveðinn draumur að verða að veruleika?

„Já, það má alveg segja það á einhvern hátt. Þetta er það sem ég hef viljað frá því ég byrjaði að æfa fótbolta."

Finnst þér þú þurfa að fara út til að taka næsta skref?

„Já, mér finnst þetta vera rétti tímapunkturinn til að taka þetta skref."

Fer strax að berjast um aðalmarkvarðarstöðuna
Í hvaða hlutverk ferðu þegar þú kemur til Elfsborg, ferðu beint í aðalliðið að berjast um að vera aðalmarkvörður?

„Ég kem út sem markmaður númer 2 sem þýðir að ég mun berjast um sæti í liðinu."

Er Elfsborg þekkt fyrir að gefa ungum leikmönnum séns?

„Já, þannig séð. Þeir eru með fullt af ungum leikmönnum á mínum aldri sem eru að fá fullt af mínútum inn á vellinum."

Elfsborg er rétta liðið
Þú fórst líka á æfingar hjá Norrköping, var það aldrei líklegt til að verða að einhverju meira en bara reynslu?

„Jú, það var alveg eitthvað sem hefði kannski getað gerst en mér fannst Elfsborg bara rétta liðið."

Það voru einnig sögur um að stærri félög á Íslandi hafi viljað fá þig, var það ekkert að kitla?

„Jú, það var alveg erfitt að hafna því. Það er auðvitað mjög gaman að vera á Íslandi og spila í Pepsi deildinni, en mér fannst þetta vera besta skrefið fyrir mig til þess að bæta mig sem leikmann."

Mjög góð upplifun að fara á stórmót
Hákon var hluti af U21 árs landsliðinu sem tók þátt í lokamóti EM í mars. Hvernig var að taka þátt í því verkefni?

„Það var geggjað að vera valinn, alltaf gaman að vera valinn í landsliðið. Það var mjög góð upplifun að fara á svona stórmót og spila á móti mjög góðum liðum sem eru með góða leikmenn. Þetta var líka skemmtileg reynsla að fá að taka þátt í svona móti og að fá að vera hluti af þessu íslenska liði."

Var það augljóst að þú værir númer þrjú af markvörðunum eða var það ekkert rætt?

„Jú, ég fékk að vita að ég væri númer þrjú og mitt hlutverk var þá bara að æfa vel og reyna peppa Patta (Patrik Sigurð Gunnarsson) og Ella (Elías Rafn Ólafsson) og hjálpa þeim í undirbúningi fyrir leikina sem þeir spiluðu."

Einbeitingarleysi í lok leikja
Aðeins að síðasta tímabili þar sem Grótta var í efstu deild. Varstu heilt yfir sáttur með þína frammistöðu síðasta sumar?

„Nei, eiginlega ekki, þó ég sé ekkert að pæla í þvi mikið, en ég lærði heilmikið á þessu tímabili."

Svo tímabilið í ár, þú byrjaðir ekki nokkra leiki í upphafi móts. Var eitthvað að hrjá þig?

„Ég var með eitthvað smá í hnénu en það var ekkert alvarlegt. Gústi og Jón Birgir sjúkraþjalfari vildu bara ekki taka neina sénsa."

Gengið ykkar að undanförnu, það hefur verið ansi mikið mótlæti - mikið stöngin út einhvern veginn. Er andinn í hópnum afram góður eða er þyngra yfir þegar gengið er ekki betra en raunin er?

„Nei, nei, andinn er góður. Við erum að spila vel, en eins og þú segir þá er þetta frekar mikið stöngin út í síðustu leikjum, við að klúðra færum og svo missa smá fókus í lok leikja og tapa þeim þannig."

Hvað þarf að gerast til að Grótta nái að snúa genginu við?

„Mér finnst við bara þurfa að halda áfram að spila okkar bolta og þá er ég alveg 100% viss að sigrar munu byrja að koma," sagði Hákon.
Athugasemdir
banner
banner
banner