Skotland tryggði sér beinan þátttökurétt á HM á næsta ári með sigri gegn Danmörku í lokaumferð undankeppni Evrópuþjóða.
Þetta er í fyrsta sinn sem Skotland fer á lokamót HM síðan 1998, eftir 28 ára bið.
Steve Clarke þjálfari Skotlands er spenntur fyrir mótinu en hvetur stuðningsmenn til að vera ekki að skuldsetja sig til að fylgja liðinu til Bandaríkjanna.
Clarke virðist ekki sérlega ánægður með ákvörðunina um að halda mótið í Bandaríkjunum. Verðlagning á miðum er upp úr öllu valdi og þá má búast við að það verði mjög dýrt að ferðast á milli staða og að gista, auk þess sem mjög heitt veðurfar gæti verið til vandræða.
Skotar eru í riðli með Brasilíu, Marokkó og Haítí á lokamótinu. Þeir spila við Haítí og Marokkó í Boston áður en þeir mæta Brasilíu í Miami.
Skoska fótboltasambandið hefur fengið úthlutað 8% af heildar sætamiðum sem eru í boði á leiki þeirra í riðlakeppninni og vonast til að fá úthlutað fleiri sætum þegar nær dregur.
„Þetta verður rándýrt. Það er dýrt að fara til Bandaríkjanna og allt í kringum mótið verður dýrt. Ef þú átt pening fyrir þessu og getur leyft þér að fylgja landsliðinu þá er það stórkostlegt, en ekki vera að skuldsetja þig alltof mikið til að fylgja okkur," sagði Clarke við BBC í Skotlandi.
„Þetta er FIFA mót og þeir ákveða það sem þeir ákveða."
Ódýrasta miðaverðið fyrir leik Skotlands gegn Haítí eru 134 pund, eða tæplega 23 þúsund krónur. Þar eru einnig dýrari miðar sem kosta 298 pund og 372 pund.
Ódýrustu miðarnir gegn Marokkó kosta svo 163 pund og hækkar verðið upp í 320 og svo 447 pund eftir því hversu góð sæti eru valin.
Að lokum eru hagstæðustu miðarnir fyrir leikinn gegn Brasilíu 198 punda virði, en einnig verður hægt að kaupa miða fyrir 373 pund og 523 pund, sem eru rúmar 88 þúsund krónur.
Athugasemdir



