Amorim hleypir Mainoo ekki burt - Tottenham vill Van Hecke og Thiago - Gæti Xavi tekið við Tottenham?
   mán 15. desember 2025 21:49
Ívan Guðjón Baldursson
Átta mörk í ótrúlegum leik: Sjáðu aukaspyrnumark Bruno
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Manchester United er að spila við Bournemouth þessa stundina og eru nokkrar mínútur eftir af venjulegum leiktíma.

Leikurinn er búinn að vera ótrúleg skemmtun þar sem liðin hafa skipst á að skora og taka forystuna, en staðan er 4-4 fyrir Man Utd þegar fréttin er skrifuð.

Amad Diallo, Antoine Semenyo og Casemiro skoruðu í fyrri hálfleik en tvö mörk á fyrstu sex mínútunum eftir leikhlé snéru stöðunni við fyrir gestina. Evanilson og Marcus Tavernier skoruðu lagleg mörk, markið hans Tavernier beint úr aukaspyrnu, til að taka forystuna.

Rauðu djöflarnir sýndu magnaða sóknartilburði í fyrri hálfleik og hefðu hæglega getað skorað fleiri mörk en færanýtingin þeirra var betri í síðari hálfleiknum.

Bruno Fernandes jafnaði metin á 77. mínútu með glæsilegu marki beint úr aukaspyrnu, tveimur mínútum áður en Matheus Cunha endurheimti forystuna.

Í þetta skiptið tókst heimamönnum ekki að halda í forystuna í meira en fimm mínútur. Eli Kroupi Jr. kom inn af bekknum og gerði enn eitt jöfnunarmarkið skömmu síðar eftir hrikalegan varnarleik Man Utd.

Sjáðu aukaspyrnumark Bruno Fernandes.

Eins og staðan er núna þá er Man Utd með 26 stig eftir 16 umferðir, tveimur stigum á eftir Chelsea í Meistaradeildarsæti.

Bournemouth er með 21 stig.
Athugasemdir
banner