Munoz, Gallagher og Adams orðaðir við Man Utd - Man City vill fá Marc Guehi
   þri 16. desember 2025 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
Eldri borgarar í hlutverki lukkubarna
Mynd: Werder Bremen
Mynd: Werder Bremen
Werder Bremen tók á móti Stuttgart í síðasta heimaleik sínum fyrir jólafrí í þýska boltanum og steinlá, 0-4.

Fyrir leik ákvað Werder Bremen að fara áhugaverða leið til að vekja athygli á því hvernig fótbolti getur tengt mismunandi kynslóðir saman.

Þegar leikmenn gengu inn á völlinn voru engin lukkubörn sjáanleg, heldur voru eldri borgarar komnir í þeirra stað.

Werder Bremen bauð 200 eldri borgurum á leikinn, ásamt ættingjum og umönnunaraðilum sínum, auk þeirra 22 sem gengu með leikmönnum inn á völlinn. Þetta er partur af herferð félagsins til að styðja við eldri borgara.

Werder hvetur eldri borgara til að iðka fótbolta og felast markmiðin meðal annars í því að minnka einmannaleika gamals fólks og auka samskipti þeirra við yngri kynslóðirnar.

„Með þessari herferð viljum við sýna fólki að Werder tengir fólk saman. Félagið er ekki bara grænt og hvítt að eilífu fyrir okkur, heldur líka fyrir ykkur," sagði Hubertus Hess-Grunewald, forseti Werder Bremen, meðal annars.

Þetta er nánast sama hugmynd og Þróttur Vogum fékk og framkvæmdi síðasta sumar hér á landi.

Werder Bremen er búið að tapa þremur af síðustu fjórum deildarleikjum sínum og situr í neðri hluta þýsku deildarinnar, með 16 stig eftir 14 umferðir. Liðið er fimm stigum fyrir ofan fallsvæðið.
Athugasemdir