Amorim hleypir Mainoo ekki burt - Tottenham vill Van Hecke og Thiago - Gæti Xavi tekið við Tottenham?
   mán 15. desember 2025 20:22
Ívan Guðjón Baldursson
Flick: García er aðalmarkvörðurinn
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Þýski markvörðurinn Marc-André ter Stegen er búinn að jafna sig eftir meiðsli en hefur setið á varamannabekknum hjá Barcelona síðustu tvo leiki.

Joan García er orðinn aðalmarkvörður félagsins eftir að hafa verið keyptur úr röðum nágrannana í Espanyol síðasta sumar.

„Marc er stórkostlegur markvörður en við erum með þrjá þannig og er Joan García aðalmarkvörðurinn. Það getur breyst með tímanum, en svona er staðan í dag," segir Hansi Flick þjálfari Barcelona.

„Það má heldur ekki gleyma (Wojciech) Szczesny sem er líka lykilmaður fyrir okkur, bæði innan og utan vallar."

Ter Stegen er 33 ára gamall og hefur verið að glíma við slæm meiðslavandræði síðastliðin tvö ár, fyrst á hné og svo á baki. Hann hefur aðeins spilað 8 deildarleiki fyrir Barcelona frá byrjun síðustu leiktíðar.

Tyrkneska félagið Besiktas var á dögunum orðað við Ter Stegen. Þjóðverjinn gæti yfirgefið Barcelona á láni í janúar til að fá spiltíma og um leið tækifæri til að sanna sig á ný eftir erfið meiðsli.

Samningur hans við Spánarmeistara rennur ekki út fyrr en sumarið 2028.
Athugasemdir
banner