Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   fös 04. september 2020 10:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Spáin fyrir enska - 16. sæti
Newcastle
Marki fagnað á síðasta tímabili.
Marki fagnað á síðasta tímabili.
Mynd: Getty Images
Steve Bruce.
Steve Bruce.
Mynd: Getty Images
Allan Saint-Maximin, flottur leikmaður.
Allan Saint-Maximin, flottur leikmaður.
Mynd: Getty Images
Longstaff bræður.
Longstaff bræður.
Mynd: Getty Images
Joelinton og Jamal Lascelles. Joelinton, dýrasti leikmaður í sögu Newcastle, skoraði bara tvö deildarmörk á síðasta tímabili.
Joelinton og Jamal Lascelles. Joelinton, dýrasti leikmaður í sögu Newcastle, skoraði bara tvö deildarmörk á síðasta tímabili.
Mynd: Getty Images
Mike Ashley, eigandi Newcastle, með bros á vör. Hann er líklega óvinsælasti maðurinn í borginni.
Mike Ashley, eigandi Newcastle, með bros á vör. Hann er líklega óvinsælasti maðurinn í borginni.
Mynd: Getty Images
Eftir undirbúningstímabil í styttri kantinum mun enska úrvalsdeildin hefjast aftur þann 12. september næstkomandi. Við kynnum liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Í 16. sæti er Newcastle.

Um liðið: Newcastle er stórt félag, með stóran völl og mikinn stuðning. En eigandinn á bak við félagið er ekki góður. Stuðningsmenn Newcastle gerðu sér vonir í sumar um nýja moldríka eigendur en á endanum gekk það ekki upp. Síðustu árin hefur Newcastle verið í neðri helmingi úrvalsdeildarinnar eða þá í Champhionship-deildinni. Það er orðið ansi langt síðan Newcastle, sem unnið hefur efstu deild á Englandi fjórum sinnum (síðast 1927) barðist um titla og keppti í Meistaradeildinni, og það er ekki að fara að gerast í ár.

Staða á síðasta tímabili: 13. sæti.

Stjórinn: Það voru allflestir stuðningsmenn ósáttir við það þegar Steve Bruce var ráðinn á síðasta ári til að taka við af Rafa Benitez. Þetta þótti langt frá því að vera metnaðarfull ráðning og þá er Bruce fyrrum stjóri erkifjendana í Sunderland. Hann kom hins vegar bara nokkuð mikið á óvart og stýrði liðinu nokkuð örugglega til áframhaldandi veru í deild þeirra bestu. Bruce hefur verið lengi í bransanum en hann er kannski ekki þjálfari sem þú leitar til ef þú vilt gera eitthvað meira en halda þér bara uppi.

Styrkleikar: Það eru virkilega flottir leikmenn þarna inn á milli og þá sérstaklega Frakkinn Allan Saint-Maximin sem kom öflugur inn í liðið í fyrra. Hann er þeirra besti leikmaður. Stuðningsmenn félagsins eru frábærir og styðja við bakið á sínum mönnum á hinum glæsilega heimaleikvangi félagsins.

Veikleikar: Liðið spilar ekki skemmtilegan fótbolta og reynir að halda sem minnst í hann. Þó það hafi gengið ágætlega á síðustu leiktíð er erfitt að sitja til baka allan tímann og bíða. Það hefur ekkert gerst á leikmannamarkaðnum og það vantar níu sem getur skorað fullt af mörkum. Joelinton var keyptur fyrir helling af pening fyrir síðustu leiktíð og skilaði heilum tveimur mörkum í 38 leikjum í deildinni. Sagan af eigendaskiptum var löng og biðstaðan hafði áhrif á Bruce og væntanlega liðið líka, hvort þau áhrif nái inn á völlinn mun koma í ljós.

Talan: 41,8. Samkvæmt vefsíðunni WhoScored hélt Newcastle boltanum að meðaltali 41,8 prósent innan liðsins á síðasta tímabili, minnst allra liða í ensku úrvalsdeildinni.

Lykilmaður: Allan Saint-Maximin
Þetta er skemmtilegur leikmaður. Franskur kantmaður sem var keyptur inn fyrir síðasta tímabil og hann kom öflugur inn í liðið. Hann er teknískur, gríðarlega góður á boltann og með mikinn sprengikraft. Hann er besti leikmaður Newcastle og hann þarf að eiga gott tímabil til þess að Newcastle forðist fall. Eitt í viðbót Saint-Maximin, hann er mjög skemmtilegur og hress á samfélagsmiðlum.

Fylgstu með: Longstaff bræður
Satt best að segja er ekki mikið um spennandi leikmenn í Newcastle fyrir utan Saint-Maximin en Longstaff bræður eru skemmtilegir. Sean og Matty eru báðir miðjumenn sem þykja eiga framtíðina fyrir sér. Sean var mikið orðaður við Manchester United eftir að hafa spilað mjög vel seinni hluta tímabilsins 2018/19. Matty skoraði þá eftirminnilegt mark gegn Man Utd snemma á síðustu leiktíð. Miðað við síðasta tímabil, heilt yfir, þá finnst manni þeir eiga helling inni samt sem áður. Þá verður einnig spennandi að fylgjast með hvort Joelinton skori meira en tvö mörk á komandi leiktíð.

Tómas Þór Þórðarson - ritstjóri enska boltans hjá Símanum:
„Stuðningsmenn Newcastle voru orðnir verulega spenntir í sumar þegar að leit ekki bara út fyrir að Mikle Ashley myndi loks hypja sig heldur var þetta merka félag við það að fá einn ríkasta mann veraldar í sitt lið. Það gerðist ekki og í staðinn er það stærsta sem gerst hefur á félagaskiptamarkaðnum það, að varamaður frá Burnley er mættur (Jeff Hendrick). Steve Bruce mun vafalítið halda áfram að láta liðið liggja til baka og mögulega gera aðra atlögu að metinu að vera eins lítið með boltann og hægt er. Tímabilið verður langt, eflaust frekar óspennandi en stuðningsmenn Newcastle eru einstakir og horfa á hvern einasta leik frá upphafi til enda og vona það besta.”

Komnir:
Jeff Hendrick frá Burnley - Frítt

Farnir:
Jack Colback til Nottingham Forest - Frítt
Freddie Woodman til Swansea - Á láni

Fyrstu leikir: West Ham (Ú), Brighton (H), Tottenham (Ú).

Þau sem spáðu: Aksentije Milisic, Anton Freyr Jónsson, Arnar Laufdal Arnarsson, Brynja Dögg Sigurpálsdóttir, Elvar Geir Magnússon, Ester Ósk Árnadóttir, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Ívan Guðjón Baldursson, Magnús Már Einarsson, Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson, Sverrir Örn Einarsson og Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke.

Liðin fengu eitt stig og upp í 20 eftir það hvar hver og einn spáði þeim. Liðið í síðasta sæti fékk eitt stig, liðið í 19. sæti tvö stig og koll af kolli. Stigin í spánni tengjast á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni.
.

Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. ?
11. ?
12. ?
13. ?
14. ?
15. ?
16. Newcastle, 76 stig
17. Brighton, 49 stig
18. Aston Villa, 39 stig
19. Fulham, 30 stig
20. West Brom, 20 stig

Sjá einnig:
Draumaliðsdeild Budweiser og Fótbolta.net búin að opna
Athugasemdir
banner
banner
banner