Man Utd berst við Arsenal um Gyökeres - Chelsea og Napoli vilja Garnacho - Milan hættir að eltast við Rashford
   fim 03. september 2020 19:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Spáin fyrir enska - 17. sæti
Brighton
Brighton hafnar í 17. sæti samkvæmt spánni.
Brighton hafnar í 17. sæti samkvæmt spánni.
Mynd: Getty Images
Stjórinn.
Stjórinn.
Mynd: Getty Images
Lykilmaðurinn.
Lykilmaðurinn.
Mynd: Getty Images
Tariq Lamptey.
Tariq Lamptey.
Mynd: Getty Images
Skoraði tíu mörk á síðustu leiktíð.
Skoraði tíu mörk á síðustu leiktíð.
Mynd: Getty Images
Hvað gerir Lallana hjá Brighton?
Hvað gerir Lallana hjá Brighton?
Mynd: Getty Images
Eftir undirbúningstímabil í styttri kantinum mun enska úrvalsdeildin hefjast aftur þann 12. september næstkomandi. Við kynnum liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Í 17. sæti er Brighton.

Um liðið Brighton er hafnarborg á suðurströnd Englands. Liðið er á leið í sitt fjórða tímabil í röð í úrvalsdeildinni. Brighton & Hove Albion FC heitir félagið fullu nafni. Liðið er á öðru skeiði í efstu deild, liðið var þar einnig á árunum 1980-1983.

Staða á síðasta tímabili: 15. sæti, besti árangur félagsins í úrvalsdeildinni.

Stjórinn: Graham Potter tók við af Chris Hughton þann 20. maí vorið 2019. Potter er því að fara inn í sitt annað tímabil sem stjóri liðsins. Potter er stjóri sem leggur mikið upp úr því að spila boltanum og vill með því reyna að búa eitthvað til - á meðan Hughton lagði meira upp úr því að nýta skyndisóknir og verjast. Potter er gífurlega skipulagður og er mikið í því að kalla skipanir inn á völlinn. Hann er 45 ára gamall og stýrði áður Swansea og sænska liðinu Östersund áður en hann tók við Brighton. Á sínum leikmannaferli lék hann í vinstri bakverði.

Styrkleikar: Skýr hugmyndafræði. Félagið tók þá ákvörðun að skipta um stjóra þrátt fyrir að Hughton hafði haldið félaginu í tvígang uppi. Liðið á að spila fótbolta og tókst liðinu að halda sér í deildinni með breyttum leikstíl. Núna er liðið að fara inn í annað tímabilið með Potter og ætti að þekkja hugmyndiafræðina betur. Brighton er vel mannað til baka með Mat Ryan í markinu og þá Adam Webster og Lewis Dunk í miðvörðunum ásamt Dan Burn.

Veikleikar: Markaskorun, einungis 39 mörk skoruð. Neal Maupay skoraði tíu mörk og næstu menn á lista voru þeir Leandro Trossard og Aaron Connolly með fimm og fjögur mörk. Maupay þarf meiri hjálp í að skora mörk.

Talan: 41. Stigafjöldi liðsins á síðasta tímabili. Stigi meira en liðið fékk tímabilið 2017/18 þegar liðið endaði einnig í 15. sæti.

Lykilmaður: Lewis Dunk
Þessi 28 ára hávaxni miðvörður bindur saman vörn Mávanna og skorar svo inn á milli á hinum enda vallarins. Dunk var orðaður við Chelsea, félagið sem hann studdi í æsku, en ljóst er að hann verður hjá Brighton á þessari leiktíð. John Terry var fyrirmynd Lewis Dunk í æsku og fjölskylduhundurinn fékk nafnið Didier í höfuðið á Didier Drogba.

Fylgstu með: Tariq Lamptey
Hægri bakvörður sem Brighton keypti frá Chelsea í janúar, verður tvítugur 30. september. Lamptey lék sinn fyrsta og eina deildarleik með Chelsea gegn Arsenal þegar hann kom inn á sem varamaður og átti þátt í endurkomu í grannaslag. Lamptey er unglingalandsliðsmaður Englands. Hann byrjaði sinn fyrsta leik fyrir Brighton gegn Leicester í júní og kom við sögu í öllum leikjum eftir það. Einnig verður gaman að fylgjast með Ben White í Brighton. Hann ætti að smellpassa inn í lið Potter eftir ár í Bielsa skólanum.

Tómas Þór Þórðarson - ritstjóri enska boltans hjá Símanum:
„Ég er ekki jafn neikvæður og margir gagnvart Brighton og því sem Graham Potter er að gera þar. Það tekur tíma að breyta hlutum, sérstaklega ef það er verið að endurhugsa alla fílósófíu liðsins og félagsins. Brighton hélt bolta miklu betur á síðustu leiktíð og hætti að vera lið sem hugsaði ekki einu sinni um að vera með boltann. Það skilaði vissulega ekki miklu nema betri fótbolta en liðið hélt sér uppi á endanum. Brighton er með slatta af öflugum gaurum sem geta fylgt þessari hugmyndafræði Potters á eftir, markvörðurinn er góður, Lewis Dunk flottur að stýra vörninni og Tariq Lamptey verður stjarna í þessari deild. Potter þarf aðeins meiri stuðning á félagaskiptamarkaðnum og þá getur Brighton alveg bætt sinn besta árangur í sögunni sem er 15. sætið.“

Komnir:
Adam Lallana frá Liverpool - Frítt
Joel Veltman frá Ajax - 900 þúsund pund

Farnir:
Anthony Knockaert til Fulham - 15 milljónir punda
Leon Balogun til Rangers - Óuppgefið
Martín Montoya til Betis - 1,8 milljónir punda
Glenn Murray til Watford - Lán
Shane Duffy til Celtic - Lán
Aaron Mooy til Shanghai - 4 milljónir punda

Fyrstu leikir: Brighton (H), Newcastle (Ú), Man Utd (H).

Þau sem spáðu: Aksentije Milisic, Anton Freyr Jónsson, Arnar Laufdal Arnarsson, Brynja Dögg Sigurpálsdóttir, Elvar Geir Magnússon, Ester Ósk Árnadóttir, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Ívan Guðjón Baldursson, Magnús Már Einarsson, Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson, Sverrir Örn Einarsson og Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke.

Liðin fengu eitt stig og upp í 20 eftir það hvar hver og einn spáði þeim. Liðið í síðasta sæti fékk eitt stig, liðið í 19. sæti tvö stig og koll af kolli. Stigin í spánni tengjast á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni.
.

Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. ?
11. ?
12. ?
13. ?
14. ?
15. ?
16. ?
17. Brighton, 49 stig
18. Aston Villa, 39 stig
19. Fulham, 30 stig
20. West Brom, 20 stig

Sjá einnig:
Draumaliðsdeild Budweiser og Fótbolta.net búin að opna
Athugasemdir
banner
banner