Aston Villa
Eftir undirbúningstímabil í styttri kantinum mun enska úrvalsdeildin hefjast aftur þann 12. september næstkomandi. Við kynnum liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Í 18. sæti er Aston Villa.
Um liðið Villa er sögufrægt félag og er það staðsett í borginni Birmingham. Liðið hefur sjö sinnum orðið Englandsmeistari, síðast árið 1981. Liðið hefur einnig hampað enska bikarnum sjö sinnum. Þá var liðið Evrópumeistari vorið 1982. Villa komst upp í úrvalsdeildina vorið 2019 og er því að fara í sitt annað tímabil í röð í deild þeirra bestu.
Staða á síðasta tímabili: 17. sæti, jafntefli í lokaumferðinni hélt félaginu í efstu deild.
Stjórinn: Dean Smith er að fara inn í sitt þriðja ár sem þjálfari Villa. Við hlið Dean er svo John Terry til aðstoðar. Smith hafði áður þjálfað Walsall og Brentford. Sem leikmaður lék Smith í miðverðinum en hann er mikill stuðningsmaður Aston Villa.
Styrkleikar: Liðið virðist ætla að halda Jack Grealish innan sinna raða sem er mikill styrkur. Með Tom Heaton aftast, Tyrone Mings í hjartanu, Douglas Luiz, Jack Grealish og John McGinn á miðsvæðinu ertu með ágætis mannskap til að byggja í kringum. Sóknarleikur Villa var þokkalegur í fyrra og er styrkleiki að hafa náð að halda sér uppi þegar bakið var klesst upp við vegg þegar lokaumferðirnar voru spilaðar.
Veikleikar: Varnarleikurinn var sá versti í deildinni og markvarslan var léleg eftir að Tom Heaton heltist úr lestinni vegna meiðsla. Eins og staðan er í dag þá eru líkur á því að Heaton snúi til baka í seinni hluta október. Það vantar hraða í liðið. Þegar það verst aftarlega þá vantar hraða leikmenn til að hægt sé að geysast upp völlinn.
Talan: 0. Veskið tómt? Engum peningi verið eytt í leikmenn í sumar.
Lykilmaður: Jack Grealish
Jack Grealish er sá leikmaður sem allt snýst um hjá Aston Villa. Miðjumaðurinn var þekktur fyrir að vera með vesen utan vallar en ákvað fyrir nokkrum árum að taka aðeins til hjá sér og er hann þegar orðin mikil hetja á Villa Park. Grealish skoraði átta mörk í fyrra og var sá leikmaður í deildinni sem oftast var brotið á - potturinn og pannan í sóknarleik Villa. Hefur verið orðaður við stærri félög, þar á meðal Manchester City og Manchester United, en það stefnir allt í að hann verði áfram á Villa Park.
Fylgstu með: Trezeguet
Egyptinn var ekki frábær á síðustu leiktíð en hann heldur betur steig upp undir lok móts og skoraði þrjú mörk í síðustu fjórum leikjunum og tryggði liðinu sex dýrmæt stig í fallbarátunni.
Tómas Þór Þórðarson - ritstjóri enska boltans hjá Símanum:
„Það var alveg ótrúlega mikilvægt fyrir Villa að halda sæti sínu í ljósi fjármunanna sem voru lagðir í það. Eftir að eyða 150 milljónum punda í leikmenn fyrir síðustu leiktíð hefur ekkert gerst á leikmannamarkaðnum enn sem komið er en breytingar hafa verið gerðar á starfsliðinu. Craig Shakespeare er mættur í þjálfarateymið með meiri reynslu til að stoða Dean Smith og John Terry og þá var yfirmanni knattspyrnumála sparkað fyrir floppið á síðustu leiktíð og Johan Lange sóttur til FC Kaupmannahafnar. Það er allt gott og blessað en Villa þarf meiri breidd og traustan markaskorara. Wesley er ekki klár og hægt er að stórefast um hvort þessi dýrasti leikmaður félagsins frá upphafi sé einfaldlega nógu góður til að leiða línuna. Svo þarf sárlega betri markvörð til að standa á milli stanganna þar til Tom Heaton verður aftur klár.”
Komnir:
Farnir:
Matija Sarkic til Wolves - Frítt
James Chester til Stoke - Frítt
Fyrstu leikir: Sheffield Utd (H), Fulham (Ú), Liverpool (H).
Þau sem spáðu: Aksentije Milisic, Anton Freyr Jónsson, Arnar Laufdal Arnarsson, Brynja Dögg Sigurpálsdóttir, Elvar Geir Magnússon, Ester Ósk Árnadóttir, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Ívan Guðjón Baldursson, Magnús Már Einarsson, Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson, Sverrir Örn Einarsson og Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke.
Liðin fengu eitt stig og upp í 20 eftir það hvar hver og einn spáði þeim. Liðið í síðasta sæti fékk eitt stig, liðið í 19. sæti tvö stig og koll af kolli. Stigin í spánni tengjast á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni..
Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. ?
11. ?
12. ?
13. ?
14. ?
15. ?
16. ?
17. ?
18. Aston Villa, 39 stig
19. Fulham, 30 stig
20. West Brom, 20 stig
Sjá einnig:
Draumaliðsdeild Budweiser og Fótbolta.net búin að opna
Athugasemdir