Spænski stjórinn Pep Guardiola segir allt vera í góðu lagi milli hans og belgíska landsliðsmannsins Kevin de Bruyne, en að hann þurfi tíma til að komast aftur í sitt besta form.
Sparkspekingarnir Gary Neville og Jamie Carragher töluðu um það eftir 2-0 tap Manchester City gegn Liverpool um helgina að eitthvað skrítið væri í gangi í klefa City-manna.
Ræddu þeir mögulega fýlu milli De Bruyne og Guardiola, en Spánverjinn hefur lítið notað leikmanninn í gegnum þennan skelfilega kafla sem liðið er að ganga í gegnum. Gary Lineker sagði einnig að ekki væri allt með felldu og talaði Micah Richards um mögulegt ósætti.
Guardiola harðneitar þessum sögusögnum og segir allt vera í himnalagi milli þeirra.
„Fólk er að segja að það sé vandamál á milli mín og Kevin. Haldið þið að mig langi ekki til að spila honum? Að ég vilji það ekki? Þetta er sá leikmaður sem hefur hvað mestu hæfileikana á síðasta þriðjungi vallarins. Að ég vilji ekki hafa hann og það séu persónuleg vandamál milli mín og hans eftir að hafa eytt níu árum saman?“
„Hann hefur fært mér stærsta árangur í sögu félagsins. Ég örvænti þess að fá það besta frá honum, en hann hefur verið meiddur í fimm mánuði og síðan aftur í tvo mánuði. Hann er 33 ára gamall og þarf tíma til að finna sitt besta form,“ sagði Guardiola.
De Bruyne verður samningslaus eftir þetta tímabil og hefur Man City ekki hafið viðræður við hann um nýjan samning. Talið er að hann fari eftir tímabilið og semji við félag í Sádi-Arabíu.
Akkúrat núna er leikmaðurinn að einbeita sér að koma sér aftur í gang.
„Ég myndi elska það að hafa Kevin á hátindi ferilsins, í kringum 26 eða 27 ára. Hann myndi elska það líka, en hann er ekki lengur á þessum aldri. Hann hefur glímt við meiðsli, mikilvæg og löng meiðsli og til að hafa þetta pláss og þessa orku þarf hann að vera líkamlega klár. Ég veit að hann vill ólmur hjálpa okkur og getur sýnt brot af snilli, sem aðeins hann hefur,“ sagði Guardiola.
Athugasemdir