Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, og Birkir Bjarnason, fyrirliði, sátu fyrir svörum á fréttamannafundi í Laugardalnum í dag fyrir leik karlalandsliðsins gegn Albaníu á morgun.
Ísland náði 2-2 jafntefli gegn Ísrael ytra í síðustu viku en það má búast við erfiðari leik á morgun þar sem Albanía er með mjög svo sterkt lið.
Guðjón Guðmundsson, betur þekktur sem Gaupi, var mættur á fundinn í dag og spurði Arnar út í gagnrýnina sem hann og liðið hefur fengið síðustu vikur og mánuði.
„Nú hefur þú og liðið setið undir mikill gagnrýni síðustu mánuði fyrir frammistöðuna. Að sumu leyti er það kannski réttmætt og að sumu leyti kannski ósanngjarnt. Hvað finnst þér sjálfum um þá gagnrýni sem þú hefur fengið í fangið og þann vind sem þú hefur verið með í andlitinu frá því þú tókst við?" spurði Gaupi sem var mættur frá Stöð 2 Sport.
Arnar sagði þá að þetta væri mjög opin spurning. „Hún á að vera það," svaraði Gaupi þá.
„Ég get svarað ef þú ert að gagnrýna mig fyrir eitthvað. Þá get ég svarað því... eina sem ég get sagt er að ég þarf að vinna vinnuna mína. Ef þú spyrð mig um eitthvað ákveðið - ef þú ert að gagnrýna mig fyrir eitthvað sérstakt - þá skal ég svara því."
„Ég svara ekki svona opinni spurningu," sagði Arnar.
Upp á síðkastið hefur Arnar meðal annars verið gagnrýndur fyrir val sitt á leikmannahópi þar sem leikmenn sem hafa ekki verið að spila mikið með félagsliði eru valdir í landsliðið.
Frá því að hann tók við liðinu hefur hópurinn gengið í gegnum ótrúlegar breytingar af ýmsum ástæðum og hefur árangurinn ekki verið sérstaklega góður. Á þeim 18 mánuðum sem hann hefur stýrt liðinu hafa aðeins komið sigrar gegn Færeyjum og Liechtenstein, og hefur liðið fengið mikla gagnrýni fyrir frammistöðu í flestum þeim leikjum sem spilaðir hafa verið.
Síðasta fimmtudag bættist Ísrael næstum því á lista yfir lið sem Ísland hefur unnið síðastliðið eitt og hálft ár, en það vantaði herslumuninn undir lokin. Kannski bætist Albanía við á morgun, en til þess þarf ansi góðan leik.
Leikurinn gegn Albaníu á morgun hefst klukkan 18:45 og er á laugardalsvelli.
Athugasemdir