Skoraði fjögur mörk í 15 deildarleikjum í sumar. Hann tók einnig þátt í öllum bikarleikjum KA fram að úrslitaleiknum.
Það hafa verið tíðindi af KA síðustu daga, um helgina var sagt frá því að Sveinn Margeir Hauksson hefði rift samningi sínum við KA og nokkrum dögum áður var sagt frá því að Bjarni Aðalsteinsson væri að æfa með liði í dönsku B-deildinni.
Hvorugur þeirra er í dag samningsbundinn KA en báðir voru þeir í stóru hlutverki á liðnu tímabili, Bjarni var byrjunarliðsmaður allt tímabilið og Sveinn Margeir spilaði mikið áður en hann hélt til Bandaríkjanna í háskólanám í lok júlí
Fótbolti.net ræddi við Sævar Pétursson, framkvæmdastjóra KA, og spurði hann út í stöðu mála. Byrjað var á því að spyrja út í miðjumanninn Bjarna.
Hvorugur þeirra er í dag samningsbundinn KA en báðir voru þeir í stóru hlutverki á liðnu tímabili, Bjarni var byrjunarliðsmaður allt tímabilið og Sveinn Margeir spilaði mikið áður en hann hélt til Bandaríkjanna í háskólanám í lok júlí
Fótbolti.net ræddi við Sævar Pétursson, framkvæmdastjóra KA, og spurði hann út í stöðu mála. Byrjað var á því að spyrja út í miðjumanninn Bjarna.
Gæti samið úti eða komið til baka rétt fyrir mót
„Staðan er sú að konan hans er í námi í Danmörku, búin að vera í þrjú ár í Bandaríkjunum og er núna í mastersnámi í Kaupmannahöfn. Bjarni er aðeins á milli steins og sleggju, er með samningsdrög hjá okkur sem honum líst vel á, en vill aðeins bíða og sjá hvort hann geti verið í Danmörku. Það gæti komið í ljós núna í vikulokin, hann er að æfa með B93, það kemur í ljós hvort eitthvað meira verði úr því eða ekki. Ef ekki þá á ég von á því að hann verði með okkur næsta sumar, en ef hann verður úti þá kemur hann bara eftir tvö ár þegar kærastan er búin með mastersnámið," segir Sævar.
Er möguleiki á því að Bjarni spili úti í Danmörku en snúi aftur til Íslands áður en glugginn í vor lokar?
„Það sem er líklegast er að hann verði í Danmörku út mars og komi til baka þegar mótið er að byrja. Ég skil Bjarna, er með kærustu og við viljum ekki setja hann í þá stöðu að velja á milli konunnar og KA."
Hvernig kom B93 upp, komuð þið eitthvað að því?
„Þetta kemur upp í gegnum Bjarna, við erum búnir að segja við hann, hvort sem þetta gangi upp eða ekki, ef hann verður áfram hjá okkur þá munum við hjálpa honum við að finna sér eitthvað lið út í Danmörku til æfa með fram að Íslandsmóti til að vera í góðu standi. Það sem ég hef minnstu áhyggjurnar af með Bjarna Aðalsteins er að hann verði ekki í standi, mikill íþróttamaður," segir Sævar um stöðu Bjarna.
Námið í forgangi - Næði einungis sex vikum
Sveinn Margeir er í meistaranámi í fjármálaverkfræði við UCLA háskólann. Eru einhverjar líkur á að hann verði með KA á næsta tímabili?
„Já, ég held að það séu bara ágætis líkur á því, en skólinn hjá Svenna er aðeins öðruvísi en það sem við höfum hingað til verið að glíma við. Síðasta prófið hjá honum er ekki fyrr en 10.-15. júní og þarf svo að vera mættur aftur í lok júlí. Þetta eru því ekki nema sex vikur sem hann gæti verið á Íslandi næsta sumar. Ástæðan einna helst fyrir því að hann er að skoða sín mál núna er að þetta nám sem hann er í, skólinn gerir dálítið miklar kröfur á hvar hann er að vinna í starfsnámi næsta sumar. Ég held hann geti ekki einu sinni svarað, hvorki okkur né einhverjum öðrum, hvort hann verði að vinna á Wall Street næsta sumar eða í Íslandsbanka á Akureyri eða eitthvað slíkt."
„Hann er í það flottu námi að skólinn er í forgangi akkúrat í dag, fótboltinn verður númer tvö næsta ár. Þetta er geggjað nám sem hann mun fljúga í gegnum."
Ef hann verður ekki í KA á næsta ári, gerirðu þér vonir um að hann snúi aftur þegar náminu er lokið?
„Ég tel fínar líkur á því, en þetta auðvitað snýst meira um hvað hann ætlar að gera vinnulega séð. Það nám sem hann er að klára er það flott að það er spurning hvað hann getur gert með vinnu. Það stendur ekki á KA að reyna gera allt til þess að Sveinn Margeir verði á Akureyri, þetta snýst um hvað hann vill gera þegar hann verður stór," segir Sævar.
Athugasemdir