Veigar Páll Gunnarsson mætti á sína fyrstu æfingu hjá Víkingi R. í hádeginu í dag eftir að hann kom til félagsins á láni frá FH. Veigar ræddi við Fótbolta.net fyrir æfinguna. Veigar kom til FH frá Stjörnunni síðastliðið haust en hann hefur einungis komið við sögu í einum leik í Pepsi-deildinni í sumar.
„Maður vill fá að spila. Ég talaði við Loga (Ólafsson) og hann sagði að ég mun allavega fá að spila meira en í Hafnarfirði. Ég þekki Loga mjög vel og hann mig og ég held að þetta eigi eftir að virka vel," sagði Veigar.
„Tíminn hjá FH hefur verið stórkostlegur. Það er frábært að vera þarna. Þetta eru flottir strákar og það er allt flott við þennan klúbb. Það vantaði bara upp á spilatímann. Annars var ég mjög sáttur þarna."
„Auðvitað vill maður fá að spila eitthvað. Ég fékk átta mínútur eða eitthvað svoleiðis. Það er ekki alveg nóg. Það hefur mikið með það að gera að FH er með tvo heitustu framherjana í Flóka og Lennon. Það er kannski skiljanlegt að maður sé á bekknum en mínúturnar voru alltof fáar," sagði Veigar sem er spenntur fyrir því að spila með Víkingi.
„Eftir að Logi tók við þá er búið að ganga gríðarlega vel hjá þeim. Ég þekki aðeins til leikmanna og liðsins og þetta er allt á uppleið eins og staðan er í dag. Það eru gríðarlega spennandi tímar framundan hjá Víkingi."
Veigar er 37 ára gamall en hann veit ekki hvað tekur við hjá sér eftir þetta tímabil. „Það er erfitt að segja núna hvað gerist eftir að þetta tímabil klárast. Ég spái í því þegar þar að kemur," sagði Veigar.
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.
Athugasemdir