Gestir vikunnar í sjónvarpsþætti Fótbolta.net. Jón Kaldal, Almar Guðmundsson og Kolbeinn Tumi Daðason.
Björn Einarsson og Guðni Bergsson berjast um formannssætið hjá KSÍ en kosið verður á ársþingi sambandsins í Vestmannaeyjum á sunnudaginn. Í sjónvarpsþætti Fótbolta.net í vikunni var rætt um það hvor þeirra er líklegri til sigurs í kjörinu.
„Ef þú hefðir spurt mig fyrir 2-3 vikum þá hefði ég sagt Björn Einarsson. Það var mjög sterkur meðbyr með honum þá. Ég er ekki eins viss núna. Guðni hefur aðeins verið að sækja í sig veðrið. Hann kom til leiks með pínu óskýra sýn á það hvað hann vildi gera á meðan Björn kom með mjög klára stefnu. Guðni hefur verið að herða á því hvað hann vill gera núna.“ sagði Jón Kaldal, fyrrum formaður Þróttar, í sjónvarpsþættinum.
Almar Guðmundsson, fyrrum formaður Stjörnunnar, segir erfitt að meta möguleika Björns og Guðna. Sjálfur myndi hann velja Björn ef hann væri með atkvæðisrétt.
„Ég treysti mér ekki að meta hvor er sigurstranglegri en ég held að Björn sé formaður sem KSÍ þarf meira á að halda á þessum tímapunkti heldur en Guðni. Við þurfum að gera breytingar á umgjörð stjórnarinnar. Samtalið við stjórnarborðið þarf að vera skýrara. Maður upplifir ekki að það sé velkomið við stjórnarborðið hjá KSÍ að menn ræði málin og hafi mismunandi skoðanir. Í nútímanum er eðlilegt að menn skiptist á skoðunum. Í anda gagnsæis og fleira sem Geir og félagar hafa verið að brölta með þá sé Björn líklegri til að laga til þar. Ég held að Björn sé líka öflugur hvað varðar fjármál og ég tel það skipta máli."
„ Svo ég taki Guðna megin líka þá eru aðrir þættir líka. Guðni er frábær sendiherra hér heima og úti. Geir hefur gert mjög vel í taktinum gagnvart samböndunum úti, með tengsl og annað. Það er risastórt peningaspursmál líka. Ég er meira Björns megin og það er af því að ég tel að það þurfi að gera breytingar á því hvernig stjórnin vinnur og inni á skrifstofunni. Ég tel að hann sé betur til þess fallinn en Guðni."
Kolbeinn Tumi Daðason segist skynja óvissu hjá mörgum félögum, sérstaklega úti á landi.
„Mörg félög úti á landi voru að bíða eftir þriðja framboðinu. Höskuldur Þórhallsson langaði ekki bara að vera með í umræðunni. Hann var að hringja í félög og kanna baklandið. Hann ákvað svo að fara ekki fram. Það endaði á því að það var enginn fulltrúi landsbyggðarinnar og nú þurfa þau að gera upp hug sinn."
„Guðni myndi alltaf sópa þessu í þjóðaratkvæðagreiðslu en þetta eru bara 150 atkvæði sem dreifast út um allt land. Ég held að sum félög verði svo til ennþá að ákveða sig á laugardaginn," sagði Kolbeinn Tumi í þættinum.
Hér að ofan má sjá spjallið í heild sinni.
Sjá einnig:
Kappræður Björns og Guðna úr útvarpsþættinum
Athugasemdir