Van Dijk vill framlengja - PSG og Juve vilja Salah - Man Utd vill Rabiot
   mið 07. ágúst 2024 15:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Alfons vill meiri spiltíma og lítur í kringum sig - Hagur allra að hlutirnir gerist hratt
'Það sem ég mun velja, ef ég vel eitthvað, þá verður það eitthvað sem mun heilla mig'
'Það sem ég mun velja, ef ég vel eitthvað, þá verður það eitthvað sem mun heilla mig'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Það er alltaf eitthvað í gangi og maður skoðar það sem er áhugavert'
'Það er alltaf eitthvað í gangi og maður skoðar það sem er áhugavert'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég veit hvernig Åge hugsar þetta'
'Ég veit hvernig Åge hugsar þetta'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alfons og Willum eru góðir félagar, voru saman hjá Breiðabliki áður en þeir héldu í atvinnumennsku.
Alfons og Willum eru góðir félagar, voru saman hjá Breiðabliki áður en þeir héldu í atvinnumennsku.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fjallað var um heimkomuna leiðinlegu hjá Alfons Sampsted í síðasta mánuði en hann kom heim til Enschede í Hollandi úr æfingaferð og á móti honum tóku skemmdar eigur vegna vatnstjóns.

Fótbolti.net ræddi við hann í dag og var meira talað um fótbolta í þetta skiptið, en þó byrjað aðeins á smá uppfærslu á stöðu mála eftir rigningarnar.

„Það má nú eiginlega segja að þetta hafi klárast áðan. Á meðan ég var í Austurríki þá kom maður frá tryggingafélaginu og sótti restina af skemmda dótinu. Þetta tók sinn tíma, held ég hafi fengið einhverja fjóra lánsbíla á þessum tíma - í heildina bara aukaálag ofan á lífið, en á endanum leystist þetta allt sem betur fer," segir Alfons.

Frábær árangur liðsins en hefði sjálfur viljað spila meira
Að fótboltanum þá, Twente endar í 3. sæti hollensku deildarinnar í vor og er því núna í forkeppni Meistaradeildarinnar.

„Það er frábært. Það er spurning hvernig okkur gengur í Meistaradeildinni, en við erum allavega tryggðir inn í Evrópudeildina. Það er stór gulrót fyrir félagið að fá Evrópuleiki í vetur."

„Við enduðum tímabilið á góðum nótum, ég spilaði minna en ég hefði kosið, eitthvað af því er í mínum höndum og eitthvað af því er ekki í mínum höndum. Maður reynir að halda hausnum við það að stjórna því sem maður getur stjórnað sjálfur. Síðan kemur maður inn í nýtt undirbúningstímabil og inn í samkeppni. Að öllum líkindum verður mun meira um róteringar í liðinu á komandi tímabili miðað við í fyrra. Í fyrra þá tók ég tímabil þar sem ég spilaði allar mínútur en tók svo líka tímabil þar sem ég spilaði engar mínútur. Ég hugsa að það verði ekki eins í ár; verði meiri róteringar milli leikja og álaginu dreift jafnar yfir hópinn þar sem við erum oft að spila þrjá leiki í viku."


Valið eftir týpum frekar en frammistöðu
Alfons var einn af þremur kostum í hægri bakvörðinn í fyrra. Núna er einn samkeppnisaðilinn farinn.

„Við vorum þrír sem skiptum þessu á milli okkar, erum allir virkilega ólíkar týpur. Ég er hreinræktaðasti bakvörðurinn af okkur. Við erum með annan sem er vanari því að spila á miðjunni. Þriðji bakvörðurinn var svo meiri kantmaður. Það var á tímabili verið að velja týpur inn í liðið, frekar en að velja eftir frammistöðu. Einn er farinn núna og við erum tveir eftir."

„Núna á undirbúningstímabilinu er verið að velja eftir því hvers konar jafnvægi þjálfararnir vilja hafa í liðinu; hvort þeir vilji ná að yfirmanna á miðsvæðinu eða hvort þeir vilja leita meira út í breiddina."


Skoðar hvað sé í boði
Alfons er að horfa í kringum sig og kanna hvað er í boði annars staðar.

„Er það ekki alltaf í hausnum hjá fótboltamanni sem er ekki að spila eins mikið og hann vill? Að kíkja aðeins í kringum sig. Það er alltaf eitthvað í gangi og maður skoðar það sem er áhugavert. Ég á í virkilega góðu sambandi við klúbbinn og þeir verða ekki reiðir ef maður vill fara í einhverjar viðræður."

„Ég fór ekkert inn í sumarfríið með það eina markmið að koma mér burt. Ég hugsaði um að endurstilla hausinn og líkamann og koma aftur til baka í góðu formi."


Er skýrt að þú ert ekki að fara frá Twente í dag?

„Nei, það er ekki sett í stein. Það eru einhverjar fyrirspurnir búnar að koma og það er eitthvað sem við erum búnir að vera kíkja á. Ég þarf í raun bara að taka ákvörðun frekar fljótlega. Það sem ég mun velja, ef ég vel eitthvað, þá verður það eitthvað sem mun heilla mig."

Kann vel við sig í Hollandi
Alfons hefur verið í eitt og hálft ár í Hollandi, kom til félagsins í vetrarglugganum tímabilið 2022/23. Hann kann vel við sig í Hollandi.

„Lífið utan vallar er fínt, ég er búinn að búa til ágætis hring í kringum mig sem mér líður vel með mig; bæði leikmenn í liðinu og utan liðsins. Hollenska menningin er alveg smá einstök, þeir eru alveg með bein í nefinu, hata ekkert að halda hátíðir, Hollendingar eru alveg Hollendingar, ef maður getur orðað það þannig," segir Alfons og hlær.

„Ég kann mjög vel við mig, þetta er flott land og lífskjörin eru mjög góð. Það er allt til alls hér til að líða frekar vel."

Einstakt að spila á heimavelli Twente
Hollenska deildin er talsvert stærri en norska deildin sem Alfons lék í áður en hann kom til Twente.

„Fótboltinn sem er spilaður er öðruvísi, boltinn í Noregi er mun taktískari og lokaðri. Í Hollandi lifir gamla 'Total Football' pælingin enn góðu lífi. Meðalleikvangur hérna er mun stærri en í Noregi og stuðningsmennirnir háværari."

„Við fylltum eiginlega völlinn (Grolsch Veste) alltaf í fyrra; 29 þúsund manns á leik að meðaltali og völlurinn tekur um 31 þúsund manns. Þú færð á tilfinninguna að fótboltinn skiptir fólkið virkilega miklu máli. Það er ekki bara að það sé spilaður fótbolti, fólkið vill sjá fallegan fótbolta; vilja vera afurð af pælingum Johan Cruyff."

„Það er alveg einstakt að spila fyrir framan 30 þúsund manns. Ég hugsa að ef leikmenn gestaliðanna væru spurðir um leikvanginn okkar þá myndu þeir líklega segja að það væri bæði erfitt og góð upplifun. Ég tala mikið við Willum (Þór Willumsson) t.d. og hans orð um okkar heimavöll voru bara góð. Stemningin er alltaf frábær. Það gefur manni innspýtingu og þú ert tilbúinn að leggja allt í hlutina fyrir fólkið í stúkunni."


Í góðum möguleika fyrir seinni leikinn
Alfons var kominn heim til Hollands þegar Fótbolti.net heyrði í honum í dag. Twente spilaði gegn Salzburg í Austurríki í gær og tapaðist sá leikur 2-1. Leikurinn er liður í 3. umferð forkeppninnar í Meistaradeildinni og mætast liðin aftur eftir viku í Twente.

„Þetta var opinn leikur, sérstaklega í byrjun. Salzburg pressaði okkur hátt og skildi eftir mikið pláss fyrir aftan sig. Þetta var mikið fram og til baka í byrjun en svo varð meira jafnvægi í þessu þangað til að þetta opnaðist aftur í restina."

„2-1 er virkilega vel sloppið fyrir okkur. Þetta hefði getað farið verr ef heppnin hefði ekki verið með okkur."
Mark Twente kom undir lokin beint úr aukaspyrnu. „Virkilega vel klárað. Að mínu mati hefðum við átt að vera búnir að skora fyrr í leiknum, en maður tekur þessari stöðu fagnandi farandi inn í seinni leikinn."

„Ef ég horfi á okkur sem lið þá erum við að öllu jöfnu miklu betri á heimavelli heldur en á útivelli. Við erum með mjög flottan heimavöll, frábæra stuðningsmenn og líður mjög vel á heimavelli. Ef allt er eðlilegt þá ættum við að ná aðeins betri frammistöðu og ég hef trú á því að við getum tekið þetta lið þegar við erum á okkar degi."


Hagur allra að hlutirnir gerist hratt
Alfons var ónotaður varamaður í leiknum mikilvæga og var hann spurður hvort sú staðreynd ýtti undir hans löngun til að horfa í kringum sig.

„Að sjálfsögðu. Ég er í fótbolta til þess að spila, að sjálfsögðu líka til að æfa, en að stóru leyti þá vill maður bara spila leikina. Það að maður spili ekki ýtir undir að maður skoði hvað sé í boði."

„Gagnvart landsliðinu líka, ég veit hvernig Åge hugsar þetta, hann verðsetur það mjög hátt að menn séu í leikæfingu þegar þeir koma inn í landsleikjaglugga. Það er annar mikilvægur vinkill á þetta,"
segir landsliðsmaðurinn Alfons. „Ég væri að ljúga að þér ef ég segði að leikurinn í gær hefði ekki ýtt undir það að ég skoði það sem hefur komið upp á borðið betur."

Alfons ætlar að taka ákvörðun um framhaldið fyrr heldur en síðar. „Ég hugsa líka að Twente sem félag myndi vilja að þessi ákvörðun sé tekin fyrr heldur en síðar. Þá hefur félagið tækifæri til að finna einhvern í skarðið. Ég held það hagnist öllum að gera þetta hratt," segir Alfons.

Alfons hefur verið orðaður við félög í Þýskalandi og lokar félagaskiptaglugginn þar kvöldið 30. ágúst.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner