Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   fim 08. apríl 2021 10:55
Magnús Már Einarsson
Formaður mótanefndar: Unnið að því að koma fótboltanum í gang
Valgeir Sigurðsson.
Valgeir Sigurðsson.
Mynd: Twitter - Stjarnan
Úr leik í Pepsi Max-deildinni í fyrra.
Úr leik í Pepsi Max-deildinni í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Vinnulagið hjá okkur er svipað og það hefur verið hjá okkur í þessu öllu saman. Við höldum okkur við þau plön sem gilda á hverjum tíma þangað til að við fáum einhverjar nýjar og staðfestar upplýsingar," sagði Valgeir Sigurðsson, formaður mótanefndar, í samtali við Fótbolta.net í dag.

Í dag eru tvær vikur í að keppni í Pepsi Max-deild karla eigi að hefjast en frá 24. mars hafa engir leikir farið fram og hefðbundnar æfingar verið bannaðar vegna kórónuveirufaraldursins.

Valgeir segir að engin ákvörðun hafi verið tekin með upphaf Íslandsmótsins en KSÍ vinnur nú að því að fá leyfi til að koma fótboltanum aftur af stað.

„Nú er unnið að því, í góðu samstarfi við yfirvöld, að hægt sé að koma fótboltanum í gang í einhverri mynd. Við erum bjartsýn á að við séum að fá auking skilning hvað það varðar. Ég reikna með að á allra næstu dögum fáum við niðurstöðu í þau mál."

„Íþróttastarf orðið fyrir hálfgerðum náttúruhamförum"
Ekki tókst að klára Íslandsmótið í fyrra vegna kórónuveirufaraldursins.

„Fótboltinn og íþróttir í heild sinni eru sá geiri, ef ferðaþjónustan er undanskilin, sem hefur fengið hvað mestan skell í þessum faraldri. Ég held að það sé nauðsynlegt að yfirvöld veiti sérstaka þjónustu í kringum íþróttirnar. Þetta starf hefur orðið fyrir hálfgerðum náttúruhamförum. Eftir þetta langt úthald þá þurfum við í samvinnu við stjórnvöld að finna leiðir, alveg eins og hefur verið gert víða, að viðhalda allskonar starfsemi. Ég hef trú á því að það sé hægt í kringum íþróttirnar og fótboltann. Þetta samtal er í gangi og ég held að það sé loksins aukin skilningur á stöðu okkar."

Ekki mikið rými til breytinga
Valgeir segir að rými til að færa til leiki í Pepsi Max-deild karla sé ekki mikið.

„Við erum að vinna í kringum þetta. Það er hins vegar ekkert leyndarmál að það eru í skoðun ýmis plön eins og verið hefur síðustu 14 mánuði. Staðan er sú að Pepsi-deildirnar, sérstaklega Pepsi-deild karla, eru aðþrengdari en margir gera sér grein fyrir. Það eru margir þættir sem binda þetta niður. Landsleikjahléin, þessar alþjóðlegu skuldbindingar og þátttaka í Evrópukeppnum, bikarinn hefur áhrif."

„Pepsi-deild karla á að hefjast fyrst og núverandi staða hefur mest áhrif á það mót. Við erum auðvitað að hugsa ýmsar leiðir en við erum ennþá að vinna miðað við núverandi fyrirkomulag. Vonandi getur það gengið að langmestu leyti. Hugsanlega þarf að hnikra einhverju til og þá gerum við það. Ef að þarf að byrja síðar þá kemur það niður á mótinu annars staðar."


Valgeir vonast til að skýrari mynd komist á hlutina á næstu dögum. „Vonandi fáum við mynd á þetta á næstu 2-3 dögum. Menn eru að undirbúa sig. Það eru fundir hjá ÍTF og í mótanefndinni. Við erum að vonast eftir að fá þessi jákvæðu svör sem knattspyrnuhreyfingin þarf nauðsynlega á að halda," sagði Valgeir.
Athugasemdir
banner
banner
banner