Hinn 21 árs gamli Brynjar Ingi Bjarnason hefur komið með hvelli inn í A-landsliðið og staðið sig gríðarlega vel.
Hann skoraði sitt fyrsta landsliðsmark í dag þegar Ísland gerði jafntefli við Pólland í vináttulandsleik. Hann var valinn maður leiksins.
„Mér fannst leikurinn spilast fínt og við gerðum hlutina sem þjálfararnir lögðu upp með vel, 90 prósent af leiknum," sagði Brynjar Ingi við RÚV eftir leikinn.
Brynjar fékk það verðuga verkefni í dag að kljást við Robert Lewandowski, besta sóknarmann heims. Brynjar spilaði á Kjarnafæðismótinu fyrir fjórum mánuðum svo það sé sett í samhengi.
„Ef ég fæ að kvóta góðan vin minn, hann Stubb (markvörð KA), þá er bolti bara bolti," sagði Brynjar þegar hann var spurður út í baráttu sína við Lewandowski.
„Þetta er rosalega stórt fyrir mig. Þetta er stór gluggi til að sýna hvað ég get í bolta og hvað ég vill ná úr ferlinum. Þetta góður auglýsingagluggi fyrir mig sjálfan," sagði Brynjar að lokum.
Athugasemdir