Kwame Quee, leikmaður Víkings í Pepsi Max-deildinni, er með malaríu og mun væntanlega ekki spila mikið fótbolta á næstunni.
Á vefsíðu Landlæknis segir að malaría sé algengur sjúkdómur í heittempruðum löndum og hitabeltislöndum. Helstu einkenni eru hitatoppar með köldu og svitakófum, höfuðverkur og beinverkir, niðurgangur og hósti.
Kwame er landsliðsmaður Síerra Leone og var liðið að spila í forkeppni Afríkukeppninnar á dögunum. Síerra Leone tryggði sig inn í lokakeppnina og spilaði Kwame allan leikinn í úrslitaleik um sæti þegar Síerra Leone lék gegn Benín þann 15. júní.
Það er ekki vitað nákvæmlega hve lengi hann verður frá. Honum líður ágætlega en það er langt í land að hann nái upp orku til að geta spilað.
Víkingur er þessa stundina í þriðja sæti Pepsi Max-deildarinnar, fimm stigum frá toppliði Vals. Víkingur á leik til góða á Val.
Kwame er 24 ára gamall sóknarsinnaður leikmaður sem kom hingað til lands 2017 til að spila með Víkingi Ólafsvík. Hann hefur einnig spilað með Breiðablik hér á landi.
Athugasemdir