Cunha orðaður við þrjú félög - Garnacho til Chelsea? - Sjö á óskalistum Amorim - Hvað verður um Rashford? - Chelsea vill risaupphæð
   fös 08. desember 2023 20:54
Brynjar Ingi Erluson
Bose-mótið: Breiðablik meistari í þriðja sinn - Einstaklingsmistök kostuðu Víkinga
Jason Daði gerði þriðja mark Blika
Jason Daði gerði þriðja mark Blika
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Blikar fengu þennan huggulega Bose-hátalara í verðlaun
Blikar fengu þennan huggulega Bose-hátalara í verðlaun
Mynd: Bose
Breiðablik 3 - 1 Víkingur R.
1-0 Alexander Helgi Sigurðarson ('18 )
2-0 Ágúst Eðvald Hlynsson ('19 )
3-0 Jason Daði Svanþórsson ('57 )
3-1 Erlingur Agnarsson ('80 )
Lestu um leikinn

Breiðablik er Bose-meistari árið 2023 og það í þriðja sinn frá því mótið var sett á laggirnar en liðið vann góðan 3-1 sigur á erkifjendum sínum í Víkingi á Kópavogsvelli í kvöld.

Heimamenn byrjuðu leikinn vel. Liðið átti nokkrar fínar sóknir og voru líklegri áður en Helgi Guðjónsson átti skalla í stöng eftir hornspyrnu hinum megin á vellinum.

Blikar héldu áfram á sömu braut og skilaði það marki á 18. mínútu. Uggi Jóhann Auðunsson, markvörður Víkings, átti sendingu sem ætluð var Pablo Punyed, en Alexander Helgi Sigurðarson náði einhvern veginn að komast inn í sendinguna og tækla boltann í netið.

Uggi var áfram í vandræðum í marki gestanna og tæpri mínútu síðar gerði hann önnur slæm mistök. Halldór Smári Sigurðsson átti fasta sendingu á Ugga, sem átti slæma snertingu og nýtti Ágúst Eðvald Hlynsson sér það og skoraði.

Davíð Ingvarsson var nálægt því að gera þriðja mark Blika eftir hálftíma er þrumuskot hans hafnaði í stöng.

Blikar voru alls ekki hættir. Þriðja markið gerði Jason Daði Svanþórsson. Davíð Ingvars fékk boltann í gegn, sendi hann á fjær þar sem Sveinn Gísli Þorkelsson gerði sig líklegan til að bægja hættunni frá, en hann hitti ekki boltann sem fór til Jasonar og í netið.

Víkingar fengu eitt sárabótarmark tíu mínútum fyrir leikslok er Erlingur Agnarsson stýrði fyrirgjöf Helga í netið. Lengra komust gestirnir ekki og eru það Blikar sem vinna Bose-hátalarann eftirsótta.

Þetta er í þriðja sinn sem Breiðablik vinnur mótið, en það vann einnig 2017 og 2021.
Athugasemdir
banner
banner