Amad semur við Man Utd - Mbeumo á óskalista Arsenal - Ipswich er að kaupa Philogene
   fim 09. janúar 2025 15:45
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Útlit fyrir að Viðar Örn verði með KA næsta sumar
Viðar Örn Kjartansson.
Viðar Örn Kjartansson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA.
Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Daníel Hafsteinsson fór í Víking.
Daníel Hafsteinsson fór í Víking.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðjón Ernir Hrafnkelsson.
Guðjón Ernir Hrafnkelsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sóknarmaðurinn Viðar Örn Kjartansson er að æfa með KA og þjálfari liðsins, Hallgrímur Jónasson, reiknar með að halda honum áfram.

Viðar var í október síðastliðnum úrskurðaður í sex mánaða keppnisbann af FIFA vegna skuldar við sína fyrrum vinnuveitendur í Búlgaríu, CSKA Sofia 1948. Viðar var leikmaður félagsins í um hálft ár, samdi um mitt sumar 2023 en fékk samningi sínum rift í desember það sama ár.

Viðar samdi við KA í lok mars á síðasta ári og þá átti framherjinn að greiða búlgarska félaginu ákveðna upphæð. Viðar sagði við Stöð 2 í október síðastliðnum að um væri að ræða vel viðráðanlega upphæð og að málið yrði leyst bráðlega. Enn hafa ekki fengist fréttir að málið sé leyst en Viðar er þó að æfa með KA. Samningur hans hjá Akureyrarfélaginu rann út í nóvember síðastliðnum.

„Viðar er allavega mættur til æfinga. Ég er nokkuð viss um að þau mál séu bara að klárast. Ég veit ekki nákvæmlega hvar þau standa. Hann er byrjaður að æfa og ég geri ráð fyrir honum næsta sumar," sagði Hallgrímur við Fótbolta.net í dag en Viðar fann góðan takt með KA eftir því sem leið á síðasta sumar.

Það er leiðinlegt
KA hefur misst nokkra leikmenn í vetur og ber þar helst að nefna Daníel Hafsteinsson og Svein Margeir Hauksson sem sömdu báðir við Víkinga.

Hallgrímur viðurkennir að hann hefði viljað sjá þessa tvo leikmenn fara erlendis.

„Við erum bara í fínustu málum, við erum með hörkuleikmenn. En það er líka vitað mál að það fóru góðir leikmenn og við munum bæta við okkur. Við ætlum að mæta með gott lið til leiks. Þeir sem eru hérna núna eru að æfa vel og standa sig vel," segir Hallgrímur.

„Það er ekkert launungarmál að þetta eru leikmenn sem eru héðan, KA-menn. Þeir fara frá okkur á besta aldri og það er leiðinlegt. Við viljum að þeir fari erlendis. Það var ekki að þessu sinni. Það er klárt að það var leiðinlegt en þetta er ekki í fyrsta sinn þar sem við missum góða leikmenn. Við höfum á undanförnum árum misst góða leikmenn og komið samt með flott lið inn í tímabilið. Rétt áður en ég tók við misstum við markahæsta leikmann deildarinnar í Nökkva en samt gerðum við vel þá," segir Hallgrímur.

Erum að skoða markaðinn
KA tilkynnti það fyrir síðustu helgi að Guðjón Ernir Hrafnkelsson væri kominn til félagsins frá ÍBV.

„Ég er bara mjög ánægður með það. Þetta er hörkustrákur utan af landi sem mun hjálpa okkur mikið. Hann er búinn að spila á flottu stigi. Hann er frá Egilsstöðum og vanur að búa út á landi. Hann tikkar í mörg box og kemur í samkeppnina um bakvarðarstöðurnar og þar í kring, jafnvel verður hann aðeins á kantinum líka. Fyrstu kynnin eru mjög flott af honum," segir Hallgrímur en er von á fleiri leikmönnum fljótlega?

„Við erum bara að skoða markaðinn. Það koma mörg nöfn frá umboðsmönnum. Það er ekkert stress. Maður horfir oft í það þegar gluggarnir loka erlendis og á leikmenn sem eru með gæðin til að vera í góðum liðum en fá ekki samning af einhverjum ástæðum. Við höfum stundum fengið leikmenn frá Danmörku sem hafa ekki komist að í efstu deild þar. Sá gluggi lokar um mánaðarmótin. Það er ekkert stress í okkur en við erum bara að skoða. Við höfum fengið alls konar nöfn en það er enginn sem er að labba inn um dyrnar á næstu dögum."
Athugasemdir
banner
banner