mið 10. febrúar 2021 07:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Þróttur með mjög ungt lið gegn KR - Nik útskýrir af hverju
Þróttur fagnar marki síðasta sumar.
Þróttur fagnar marki síðasta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nik Chamberlain, þjálfari Þróttar.
Nik Chamberlain, þjálfari Þróttar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Byrjunarlið Þróttar gegn KR í Reykjavíkurmóti kvenna á dögunum vakti nokkra athygli.

Þetta var leikurinn um þriðja sætið í mótinu og vann KR leikinn 6-0. Elsti leikmaður Þróttar í leiknum var fædd 2002 og sú yngsta fædd árið 2008.

Nik Chamberlain, þjálfari Þróttar, segist hafa viljað nota tækifærið til að gefa yngri leikmönnum tækifæri með meistaraflokki þar sem 2., 3. og 4. flokkur voru ekki að spila um síðustu helgi.

„Ég hef alltaf notað yngri leikmenn í mínum liðum yfir vetrartímann. Andrea Rut (Bjarnadóttir) var nýorðin 13 ára þegar hún skoraði þrennu í fyrsta meistaraflokksleiknum sínum gegn Gróttu í Lengjubikarnum 2017. Í leikjum á þessum árstíma vil ég gefa yngri leikmönnum tækifæri í meistaraflokksbolta," segir Nik.

„Í þessum tiltekna leik ákvað ég að fara inn í hann með yngra lið en venjulega. Ég hef verið að vinna mikið með yngri leikmönnum félagsins og ég vildi sjá hvernig þær myndu standa sig sem hópur. Um þessa helgi voru 2., 3. og 4. flokkur ekki að spila, sem er sjaldgæft. Ég þekki tæknilega, líkamlega og taktíska getu þeirra; ég myndi ekki setja þær út á völlinn annars og foreldrar þeirra eru með í öllu ferlinu. Ég vissi að þær gætu verið samkeppnishæfar og mér fannst þetta frábært próf / reynsla fyrir þær."
„Það eru margir efnilegir leikmenn í félaginu og uppbyggingin er þannig að leikmenn í 4. flokki geta spilað í meistaraflokki hjá mér því hlutverkin eru þau sömu. Leikmennirnir sem spiluðu þennan leik eiga mikið hrós skilið fyrir frammistöðu sína," segir Nik.

Leikurinn endaði 6-0 fyrir KR en öll mörkin komu á síðasta hálftíma leiksins. Nik segir að KR-liðið hafi ekki vaðið í færum og var hann sáttur með frammistöðuna hjá sínu unga liði.

Þróttur er að fara inn í sitt annað tímabil í Pepsi Max-deildinni eftir að hafa komið á óvart í fyrra sem nýliðar. Þróttur endaði í fimmta sæti deildarinnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner