Arsenal og Tottenham hafa áhuga á Kean - Man Utd sýndi Fermín López áhuga - Jota orðaður við Arsenal
   mán 10. febrúar 2025 19:31
Ívan Guðjón Baldursson
Dalot: Getum unnið alla stærstu titlana með Amorim
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Mynd: EPA
Portúgalski bakvörðurinn Diogo Dalot hefur tröllatrú á samlanda sínum Rúben Amorim, sem tók við stjórn á Manchester United fyrir áramót.

Dalot spjallaði við vefsíðu Manchester United og þar sagðist hann trúa því að félagið geti barist um stóra titla á komandi árum undir stjórn Amorim.

„Ég hef mikla trú á þessum þjálfara, ég trúi því að við getum unnið úrvalsdeildina með hann við stjórnvölinn. Það mun ekki gerast strax, en það mun gerast. Það mun taka sinn tíma. Ég skil að ég er bara leikmaður í þessu liði en ég finn fyrir þessum tilfinningum. Ég veit að þetta félag er hungrað í titla og allir innan þess vilja sigra. Ég er ekki að tala um einhverjar bikarkeppnir, heldur stóru titlana sem allir vilja sigra," sagði Dalot.

„Við getum unnið úrvalsdeildina með þessum þjálfara en það mun taka tíma. Hann er ótrúlega sannfærandi þjálfari, allt við hann er sannfærandi. Hann ber sig vel og er með frábæra samskiptahæfileika. Ég er að tala út frá hjartanu þegar ég segi að ég veit að þetta félag getur unnið alla stærstu titlana með Rúben Amorim við stjórnvölinn."

Undir stjórn Amorim hefur Man Utd aðeins sigrað fjóra leiki í ensku úrvalsdeildinni, gert tvö jafntefli og tapað sjö sinnum.

„Ég veit að fyrstu mánuðirnir hafa verið erfiðir. Við erum ekki að ná þeim úrslitum sem við viljum en við höfum átt virkilega góða leiki inn á milli. Við þurfum að ná meiri stöðugleika, þetta mun allt koma með tímanum. Leikjaálagið hefur verið svo mikið að við höfum varla haft tíma til að æfa saman frá því að hann var ráðinn inn sem þjálfari.

„Ég veit að þetta hljóma eins og endalausar afsakanir en svona er raunveruleikinn. Við vitum að við þurfum að bæta okkur, það er ekkert leyndarmál. Við erum að vinna hörðum höndum að því."


Man Utd er óvænt í 13. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, með 29 stig eftir 24 umferðir.
Athugasemdir
banner
banner