![Lengjudeildin](/images/leng_150x150.png)
Gunnar Heiðar tók við sem þjálfari Njarðvíkur seinni hluta tímabilsins 2023 og hefur gert eftirtektarverða hluti með liðið.
Njarðvík hefur fengið inn fjóra leikmenn frá því að síðasta tímabili lauk, tveir fengu leikheimild um helgina en það eru þeir Bartosz Matoga og Ýmir Hjálmsson. Þeir eru ekki komnir með skráða samninga á KSÍ. Hinir eru Arnleifur Hjörleifsson sem kom á láni frá ÍA og Valdimar Jóhannsson sem kom frá Selfossi og hefur skorað nokkur mörk á undirbúningstímabilinu.
Fótbolti.net ræddi við Gunnar Heiðar Þorvaldsson, þjálfara Njarðvíkur, og var staðan tekin á Njarðvíkingum þegar tæpir þrír mánuðir eru í að Íslandsmótið hefjist. Njarðvík er búið með einn leik í Lengjubikarnum en liðið tapaði naumlega fyrir KA í gær.
Fótbolti.net ræddi við Gunnar Heiðar Þorvaldsson, þjálfara Njarðvíkur, og var staðan tekin á Njarðvíkingum þegar tæpir þrír mánuðir eru í að Íslandsmótið hefjist. Njarðvík er búið með einn leik í Lengjubikarnum en liðið tapaði naumlega fyrir KA í gær.
Njarðvíkingar hafa markvisst reynt að fá unga efnilega íslenska leikmenn í sínar raðir í vetur. Það verða þó áfram kunnugleg erlend nöfn í leikmannahópi liðsins á komandi tímabili. Kenneth Hogg og Oumar Diouck hafa verið lengi á Íslandi og hafa komið sér ágætlega fyrir hér á landi. Brasilíski miðjumaðurinn, reynsluboltinn Joao Ananias, verður líka áfram hjá Njarðvíkingum.
„Við erum með skýra sýn á það hvernig við viljum hafa þetta í sumar, hvernig hóp og hvernig karaktera við viljum vinna með til þess að ná því markmiði okkar að gera betur en í fyrra. Það verður gert betur, ég get lofað því," segir Gunnar Heiðar.
Njarðvík endaði í 6. sæti Lengjudeildarinnar og missti af sæti í umspilinu í lokaumferð síðasta tímabils.
Síðasti dansinn með uppeldisfélaginu?
Leikjahæsti leikmaður efstu deildar frá upphafi, Óskar Örn Hauksson, er án félags sem stendur og óvíst hvort hann sé búinn að leggja skóna á hilluna. Hann er uppalinn Njarðvíkingur. Er Gunnar Heiðar búinn að taka samtalið við Óskar um að taka slaginn með liðinu?
„Ég hef allavega ekki tekið símtalið í hann, en það var einhver sem spurði mig út í hann úti í klúbbhúsi um daginn. Ég er ekkert að pæla í því núna, en ef hann myndi vilja eitthvað, ef hann vill halda áfram í boltanum, þá eru dyrnar alltaf opnar í Njarðvík fyrir Óskari, engin spurning."
Vilja mæta með stærri hóp til leiks
Eru Njarðvíkingar að leita að einhverri stöðu til að styrkja?
„Við erum bara að skoða markaðinn, fundum í fyrra að eftir góða byrjun að við vorum svolítið mikið að keyra á sömu leikmönnunum og hópurinn var svolítið lítill. Um miðbik móts vorum við að missa sigra niður í jafntefli, ég held það hafi verið þreytumerki, gátum ekki dreift spiltímanum eins mikið og við vildum. Við viljum læra af því og vera með aðeins stærri hóp af leikmönnum sem berjast um sæti í liðinu. Við viljum vera með tvo góða leikmenn í hverri stöðu. Það hafa margir leikmenn haft samband, fannst spennandi það sem við vorum að gera í fyrra. Ég hef frekar sagt nei við menn heldur en já. Við finnum fyrir því að það er mikill hiti yfir Njarðvík núna og vonandi mun hitna enn meira."
Væri mjög til í að fá Óðin
Einn af þeim leikmönnum sem Njarðvík hefur verið orðað við er framherjinn Óðinn BJarkason sem er samningsbundinn KR. Heyrst hefur að Óðinn verði lánaður frá KR fyrir komandi tímabil.
„Hann kom og æfði hjá okkur í vetur, það var á meðan KR var í fríi eftir tímabilið. Hann og fleiri komu og pælingin var jafnvel að þeir gætu komið til okkar í sumar. Mér fannst Óðinn smellpassa inn í hlutina hjá okkur, stóð sig vel, flottur strákur og karakter. Hann er með leikstíl sem hentar okkur, á helling inni og margt eftir ólært. Ég held að ég sem gamall framherji geti hjálpað honum helling með þá hluti. Hann er einn af þessum leikmönnum sem við höfum áhuga á og sjáum að myndi passa inn í það sem við erum að gera. Það er svo undir honum og KR komið hvað rétta skrefið fyrir hann er."
Hvað með samningslausu leikmennina?
Indriði Áki Þorláksson
„Hann kom inn á tíma í fyrra þar sem við þurftum virkileg á honum að halda. Mér fannst alveg frábær, frábær karakter og virkilega flottur leikmaður. Hann var náttúrulega ekki búinn að spila fótbolta í hálft ár, tók hann smá tíma að komast í takt en mér fannst hann gera vel. Hann leysti meira að segja hafsentinn vel fyrir okkur. Hann veit ekki sjálfur hvað hann ætlar að gera. Við vitum samt að þegar grasið byrjar að grænka og menn byrja að slá grasið þá kemur alltaf smá fiðringur í menn að taka þátt í veislunni sem fótboltasumarið er."
Gísli Martin Sigurðsson
„Hann er búinn að vera meiddur frá haustinu 2023 þegar við náðum að halda okkur uppi. Hann er búinn að fara í aðgerðir og sprautur, hitt ólíka lækna og allt. Þetta er búið að vera mjög leiðinlegt ferli hjá honum, leiðinlegt fyrir hann eftir að hafa verið valinn leikmaður ársins hér í Njarðvík 2023 að við höfum ekkert getað notað hann. Hann er með reynslu og mikil gæði og frábær karakter. Hann er akkúrat með það sem við viljum halda áfram að vinna með innan hópsins. Staðan á honum er þannig að hann er tiltölulega nýbúinn í aðgerð og það er vonast til að þetta sé það síðasta sem þurfi að gera. Það mun taka einhverja mánuði fyrir hann að komast í gang. Ég veit að hann ætlar sér að komast aftur á völlinn og við erum að reyna hjálpa honum eins mikið í því og við getum."
Kaj Leo Í Bartalsstovu
„Ég veit ekki hvað Kaj Leo ætlar að gera, hann er ekkert búinn að æfa með okkur. Ég veit ekki hvort hann spili fótbolta í sumar eða hvað. Honum er frjálst að tala við önnur félög, ég veit að hann gerði eitthvað af því en veit ekki hver staðan á honum er."
Þorsteinn Örn Bernharðsson
„Steini sleit krossband á undirbúningstímabilinu í fyrra. Hann slítur á samningsári, er að koma til baka og hefur verið að æfa aðeins með okkur. Ég veit ekki alveg hvað hann vill gera sjálfur, hann á smá í land. Hann er flottur leikmaður, frábær strákur og flottur karakter. Það er spurning hvað hann vill gera sjálfur."
Með fjóra markmenn
Bartosz Matoga hefur fengið félagaskipti í Njarðvík frá Árbæ. Eftir komu hans er Njarðvík með fjóra markmenn. „Við erum með flotta markmenn. Daði (Fannar Reinhardsson) veitti Aroni Snæ samkeppni í fyrra og hann er áfram. Svo er Andrés (Már Kjartansson) líka. Við erum þá með fjóra sem er kannski einum of mikið. Við munum klárlega skoða þau mál, skoða hvaða hlutverk hentar hverjum og einum. Það á eftir að ráðast á næstunni."
Aron Snær Friðriksson, aðalmarkmaður Njarðvíkur í fyrra, er í námi í Barcelona en hann verður kominn aftur í leikmannahópinn fyrir komandi tímabil.
Athugasemdir