þri 10. mars 2020 22:42
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Mourinho: Held að það sé gott fyrir okkur að detta út
Mourinho á hliðarlínunni.
Mourinho á hliðarlínunni.
Mynd: Getty Images
Jose Mourinho er ekki að eiga sína bestu daga á ferlinum. Tottenham hefur ekki unnið í sex leikjum í röð og er það met á annars farsælum ferli Mourinho.

Tottenham er úr leik í Meistaradeildinni eftir samanlagt 4-0 tap gegn þýska félaginu RB Leipzig.

„Auðvitað var ég jákvæður í gær, þannig verð ég alltaf að vera. Ef þú ert ekki jákvæður þá er betra að koma ekki í leikinn," sagði Mourinho við BT Sport eftir leikinn í kvöld.

„Við trúðum allir á verkefnið, en við vissum að það yrði erfitt. Þeir eru mjög sterkt lið."

Tottenham er án sterkra leikmanna. Moussa Sissoko, Harry Kane, Son Heung-min og Steven Bergwijn eru allir frá vegna meiðsla.

„Það er erfitt að skora. Í fyrstu mistökunum sem við gerðum þá skora þeir og það er erfitt. Líkamlegt atgervi þeirra er ótrúlegt, varnarmenn þeirra vinna einvígin, þeir stöðva leikinn. Þeir eru mjög hraðir í sóknum sínum og geta alltaf sært þig. Þeir eiga skilið að fara áfram."

„Ég kenni aldrei leikmönnum um suma erfiðleika. Það er erfitt fyrir mig að höndla leikmenn sem sýna ekki hvað þeir geta, ekki leikmenn sem eru að gefa allt sitt. Ég stend með strákunum."

„Ég held að það sé gott fyrir okkur að detta út. Erfið augnablik geta undirbúið þig betur fyrir framtíðina."

Mourinho var þá spurður hvort að Tottenham þurfi að endurbyggja í sumar. „Ég held ekki. Í sumar, nema að eitthvað gerist í fríinu eða á EM, þá fáum við Sissoko, Kane, Son, Bergwijn, Davies til baka. Það er risastórt."

„Fólk getur talað um afsakanir, en ég held að þetta myndi hafa áhrif á öll lið. Við sjáum hvernig við endum tímabilið," sagði Mourinho sem mætir sínum gamla félagi, Manchester United, á sunnudaginn.
Athugasemdir
banner
banner
banner