Rétt tæplega 200 Tyrkir á leiknum

Fótbolti.net spjallaði við Víði Reynisson, öryggisstjóra KSÍ, á Laugardalsvelli í dag.
Á morgun spilar Ísland við Tyrkland í mikilvægum leik í undankeppni EM. Athyglin virðist svolítið vera farin af leiknum sjálfum eftir það sem kom upp á Keflavíkurflugvelli í gær.
„Því miður. Þetta atvik í gær með þennan bursta virðist vera að setja hlutina í annað samhengi," sagði Víðir.
Tyrknesku landsliðsmennirnir voru ósáttir með það hversu lengi þeir þurftu að bíða á flugvellinum í gær. Þeir þurftu að fara í gegnum vegabréfaskoðun og öryggisleit þar sem þeir voru að koma frá óvottuðum flugvelli í Konya.
Leikmenn Tyrklands lýstu yfir óánægju sinni á samfélagsmiðlum og skapaði það mikla reiði á meðal stuðningsmanna. Þá er einnig mikil reiði vegna þess að einhver einstaklingur beindi þvottabursta að fyrirliða Tyrklands þegar hann var að ræða við fjölmiðlamenn í Leifsstöð.
Víðir segir að engin breyting verði á öryggismálum fyrir leikinn.
„Við erum búin að hitta kollega okkar frá Tyrklandi og öryggismálin og annað í kringum leikinn verða bara eins og við lögðum upp með í upphafi."
Um biðina á flugvellinum segir Víðir:
„Isavia verður að svara fyrir það. Það sem ég get sagt er að þetta er eitthvað sem við þekkjum. Íslenska liðið eftir leik þar kom frá Konya fyrir tveimur árum og við fórum í gegnum sama ferli. Þetta snýr eitthvað að skráningu flugvallarins skilst mér."
Það má búast við rétt tæplega 200 Tyrkjum á leikinn á morgun.
Viðtalið við Víði má horfa á í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir